Ekkert bólar á útspili ríkisstjórnarinnar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ mbl.is/Árni Sæberg

Framtíð stöðugleikasáttmálans og kjarasamninga gæti ráðist í dag. Forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins bíða óþreyjufullir eftir drögum að yfirlýsingu vegna málsins en þau verða birt í dag. Svartsýni eykst með hverri mínútunni.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að drögin yrðu birt í gærkvöldi. Það hafi hins vegar tafist og bíður hann enn. Hann sparar stóru orðin að sinni. „Ég vil ekkert segja fyrr en ég fæ þessa yfirlýsingu. Ef hún berst svo ekki þá gefur augaleið hvað er í gangi. Það er eindagi hjá okkur á morgun.“

Á vefsvæði Samtaka iðnaðarins er birt frétt um málið. Þar segir að mikið sé í húfi en ekki öðru trúað að óreyndu en ríkisstjórnin komi til móts við aðila vinnumarkaðarins. Einnig er vitnað í minnisblað SA og ASÍ en í því er m.a. undirstrikað mikilvægi þess að standa við áform um að hefja afnám gjaldeyrishafta 1. nóvember.

Ennfremur að allar forsendur séu nú fyrir verulegri lækkun stýrivaxta og annarra vaxta Seðlabankans  og því eigi markmið stöðugleikasáttmálans um lækkun vaxta að nást fyrir árslok og að vaxtamunur milli Íslands og evrusvæðisins verði innan við 4% í árslok 2010.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir menn þar á bæ ósátta með framgang mála um helgina. Beðið sé eftir yfirlýsingunni og framhaldið spilað af fingrum fram. „En það er alveg ljóst að innan okkar raða eru vaxandi sjónarmið í þá veru að það hafi ekki mikinn tilgang að halda þessum samskiptum við stjórnvöld áfram á þeim nótum sem þau hafa verið upp á síðkastið.“

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru stödd í Stokkhólmi þar sem þau sitja þing Norðurlandaráðs. Með í för eru Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Vefur Samtaka iðnaðarins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert