Fréttaskýring: Fiskur fyrir 386 millj. fór beint í sjóinn aftur

Lengi hefur verið deilt um hversu miklu af fiski er hent beint í sjóinn aftur og kemur því ekki að landi. Í nýlegri skýrslu, sem Hafrannsóknastofnun vann í samvinnu við Fiskifélagið, kemur fram, að á síðasta ári hafi brottkastið numið rúmlega þrjú þúsund tonnum af þorski og ýsu samanlagt; 1.090 tonnum af þorski og 1.935 tonnum af ýsu. 

Áætlar stofnunin að samanlagt brottkast þessara tegunda hafi verið um 5,9 milljónir fiska á ári að jafnaði 2001-2008.

Undirmálsfiskur er væntanlega stærsti hlutinn af brottkastinu, en eigi að síður eru veruleg verðmæti fólgin í þessum fiski. Á síðustu tólf mánuðum hafa 1.765 tonn af undirmálsýsu verið seld á fiskmörkuðum fyrir um 194 milljónir króna og meðalverð á kíló verið 110 krónur. Á sama tíma voru 2.054 tonn af undirmálsþorski seld á mörkuðunum fyrir 520 milljónir króna eða 159 krónur á kíló að meðaltali.

Miðað við þessar tölur hefðu í fyrra hugsanlega getað fengist 345 milljónir til viðbótar fyrir þennan undirmálsfisk sem var hent beint í sjóinn aftur. Um 173 milljónir fyrir þorskinn og 213 milljónir fyrir undirmálsýsuna.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að brottkast breytist með lengd fisksins, þar sem 30-33 cm fiski er öllum hent en 50 cm fiskur er nánast allur hirtur. Miðlengd brottkasts, sem svo er kallað, er 41,0 cm, en við þá lengd er brottkast 50% af fjölda fiska.

Að hálfu til aflamarks

Bent hefur verið á að kvótastaða útgerðar geti átt hlut að brottkasti, en í lögum er fjallað sérstaklega um undirmálsfisk. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, hafnar því að brottkast megi rekja til kvótakerfisins og segir að brottkast viðgangist í öllum kerfum.

Í lögum segir meðal annars að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki. Í reglugerðum um veiðar í atvinnuskyni sem settar eru fyrir hvert fiskveiðiár hafa lengi verið ákvæði sem byggjast á þessu lagaákvæði. Þar segir um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009/2010:

„Þorskur styttri en 50 sm (27 sm hausaður) og ufsi styttri en 50 sm (31 sm hausaður), ýsa styttri en 45 sm (26,5 sm hausuð) og karfi styttri en 33 sm teljast að hálfu til aflamarks, enda fari afli undir áðurgreindum stærðarmörkum ekki yfir 10% af viðkomandi tegund í veiðiferð. Undirmálsafla skal haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega af löggiltum vigtarmanni.

Þó er heimilt að ákvarða magn undirmálskarfa við endurvigtun í vinnsluhúsi. Skal undirmálskarfa sem flokkaður er frá í vinnsluhúsi til ákvörðunar á magni undirmáls haldið aðgreindum frá öðrum afla. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um afla sem flakaður er um borð í veiðiskipi. Hausaðan fisk skal mæla frá sporðsenda að gotrauf.“

Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu var 1.303 tonnum landað af undirmálsþorski sem ekki taldist til aflamarks á síðasta fiskveiðiári, 1.237 tonnum af ýsu, tveimur tonnum af ufsa og 266 tonnum af karfa. Á síðasta ári voru heimildir til að landa smáfiski utan kvóta ekki fullnýttar.

Brottkast minnkar

Brottkast þorsks og ýsu hefur verið mælt síðastliðin átta ár og var það mest árið 2005, en hefur farið minnkandi síðan. Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Fiskistofu, hefur staðið fyrir rannsókninni og segir Ólafur Karvel Pálsson, fiskifræðingur, að brottkastið sé örugglega meira en fram kemur í úttektinni. Hann segist ímynda sér að það sé þó ekki meira en sem nemur því magni sem mælt var í fyrra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert