Íhugar mál gegn Straumi Burðarás

Mál vegna Equinox hafa ekki áhrif á starfsemi World Class …
Mál vegna Equinox hafa ekki áhrif á starfsemi World Class á Íslandi, að sögn Björns Kr. Leifssonar. Árni Sæberg

Björn Kr. Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir að Straumur Burðarás hafi átt frumkvæði að því að fá hann til að fjárfesta í líkamsræktarstöðvum í Danmörku. Hann hugleiðir nú að höfða mál á hendur bankanum. Þrotabú Straums hefur nú stefnt Birni persónulega vegna viðskiptanna.

Björn hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Hún er svohljóðandi:

„Vegna fréttar í Viðskipablaðinu um hugsanlegt gjaldþrot mitt og málefni líkamsræktarstöðvarinnar Equinox  í Danmörku vill undirritaður koma  eftirfarandi á framfæri:

1.       Rekstur Equinox í Danmörku tengist ekki rekstri World Class á Íslandi. Rekstur World Class gengur nú sem fyrr vel.

2.       Straumur Burðarás hafði frumkvæði að því að fá til liðs við sig fjárfesta vegna þessa verkefnis árið 2006. 

3.       Ég tók þátt í þessu verkefni og var hlutur minn 25,5% af hlutafé félagsins. Straumur Burðarás hafði alla milligöngu um kaup á þessu félagi  og kynningu á því fyrir fjárfestum. Auk þess að lána félaginu tók bankinn þátt í þessu verkefni sem hluthafi með 49%hlut.

4.       Fljótlega kom í ljós að forsendur þær sem starfsmenn  Straums Burðaráss höfðu til grundvallar á kynningu á rekstri líkamsræktarstöðvarinnar voru í grundvallaratriðum rangar. Það sama á við um aðra ráðgjöf sem endurskoðendur og lögmenn á vegum bankans höfðu milligöngu um.  Vegna þessa hef ég falið lögmanni mínum að skoða möguleika á málshöfðun á hendur þrotabúi bankans.

5.       Undirritaður tók þátt í  margþættum  aðgerðum  til þess að rétta af halla af rekstri Equinox. Eftir mikinn þrýsting af hálfu Straums tók ég á mig persónulega meiri ábyrgðir vegna þessa reksturs. Þá hefur Kaupþing banki selt skuldabréf sem ég og fyrrum viðskiptafélagi minn tókum vegna fjármögnunar á þessu verkefni.

Þrotabú Straums hefur stefnt mér persónulega til greiðslu á öllum þessum kröfum.  Hvort að þessi málarekstur leiði til þess að ég verð persónulega gjaldþrota á eftir að koma í ljós en ég mun sem fyrr kappkosta að standa við mínar skuldbindingar. 

Ég vil ítreka að mál þetta hefur ekki áhrif á starfsemi World Class á Íslandi.
 
 
Björn Kr Leifsson“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert