Fréttaskýring: Þjóðnýting blasir við

Frá Hvalfjarðargöngum.
Frá Hvalfjarðargöngum. Sverrir Vilhelmsson

Vegtollar á Vesturlandsvegi, eins og öðrum stofnbrautum sem liggja út frá höfuðborginni, myndu gjörbreyta öllum forsendum í rekstri Hvalfjarðarganga. Í raun væri þjóðnýting þeirra eðlilegt framhald máls yrðu veggjöldin lögð á, segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar hf.

Vegtollar hafa verið nefndir í viðræðum hins opinbera við lífeyrissjóðina, vegna aðkomu þeirra að fjármögnun vegaframkvæmda sem til stendur að fara í með það fyrir augum að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju. Hefur þar meðal annars verið rætt um vegaskatt vegna fyrirhugaðra framkvæmda við breikkun Suðurlandsvegar, en hann yrði notaður til að endurgreiða lán sjóðanna.

Yfirtaka er hreinlegust

„Við vitum lítið um vegtollamálið annað en þær lauslegu hugmyndir sem reifaðar hafa verið í fjölmiðlum,“ segir Gísli Gíslason. „Hvað varðar Vesturlandsveg er hins vegar rétt að benda á, að í samningum sem ríkið og Spölur gerðu sín á milli árið 1996, í aðdraganda framkvæmdanna, eru ákvæði sem takmarka möguleika ríkisins til innheimtu gjalda og tolla á Vesturlandsvegi enda væri slíkt til þess fallið að raska rekstrarforsendum Spalar. Það var á þessum forsendum sem siglingum Akraborgar var hætt þegar göngin voru tekin í notkun árið 1998.“

Gísli Gíslason segir að verði hugmyndum um vegtolla á stofnæðunum sem liggja út frá höfuðborginni haldið til streitu sé ef til vill hreinlegast að ríkið yfirtaki Hvalfjarðargöngin. Þá verði hver og einn hluthafi að taka afstöðu til málsins; en þar er ríkið sjálft stærsti hluthafinn en aðrir stórir eru Faxaflóahafnir, Hvalfjarðarsveit, Akraneskaupstaður og Elkem Ísland, sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Skuldir Spalar eru um þrír milljarðar ísl. króna og eru þær að stærstum hluta lán frá íslenskum lífeyrissjóðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert