Icesave rætt í fjárlaganefnd

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Eggert

Icesave-frumvarpið var til umræðu á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun. Fyrir nefndina komu fulltrúar ráðuneyta sem hafa kynnt fyrirvara Alþingis, frá því í sumar, fyrir Bretum og Hollendingum og lögfræðilegir ráðgjafar sem sömdu Icesave-frumvarpið.

Á fundinn komu Benedikt Bogason lögfræðingur, Eiríkur Tómasson prófessor, Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, Páll Þórhallsson frá forsætisráðuneytinu, Einar Gunnarsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Indriði H. Þorláksson aðstoðarmaður fjármálaráðherra og Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins.

Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, segir þau hafa verið að kynna frumvarpið og bakgrunn þess. ,,Þau gerðu mjög vel grein fyrir hvernig umræðurnar áttu sér stað, samskiptin við Breta og Hollendinga og gáfu mat á niðurstöðunni, hver staðan er hjá okkur eftir þessar breytingar," segir hann.

Á morgun verður annar fundur hjá fjárlaganefnd, þar sem fulltrúar skilanefndar mæta fyrir nefndina og Áslaug Árnadóttir, yfirmaður Tryggingasjóðs fjárfesta og innstæðueiganda, mætir einnig. Á þeim fundi verður reynt að leggja aftur mat á endurheimtur eigna gamla Landbankans, sem nú er talið að verði meiri en upphaflega stefndi í. ,,Við höfum alltaf unnið með 75% endurheimtur," segir Guðbjartur.

Á mánudag er svo gert ráð fyrir því að fulltrúi Seðlabanka Íslands mæti fyrir nefndina og gefi endurmat á stöðunni varðandi skuldastöðu og skuldaþol þjóðarbúsins. Að því loknu á svo eftir að vinna frekar í ákveðnum lagalegum atriðum í frumvarpinu, að sögn Guðbjarts.

Hann vill sem minnst segja um það hvenær von sé á málinu út úr fjárlaganefnd og lofar engu um að það verði í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert