Segja gróðurhúsabændur sitja við sama borð og aðra

Rafmagnsveitur ríkisins segja, að þrátt fyrir niðurskurð á styrkjum hins opinbera, greiði garðyrkjubýli enn mun lægra verð fyrir orkudreifingu en aðrir viðskiptavinir.

Samband garðyrkjubænda stóð í dag fyrir mótmælum við Alþingishúsið vegna hás raforkuverðs, sem þeir segjast þurfa að greiða. Málið var til umræðu á Alþingi í upphafi þingfundar. Kröfur garðyrkjubænda nú eru um lækkun raforkuverðs. Þeir fara fram á að búinn verði til sérstakur garðyrkjutaxti og ennfremur að allar garðyrkjustöðvar verði skilgreindar sem þéttbýlisstaðir.

RARIK segir að samkvæmt raforkulögum sé dreifiveitum heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Orkubú Vestfjarða og RARIK hafi fengið slíkt leyfi. Dreifbýlisgjaldskrá sé háð sömu skilyrðum og almenn gjaldskrá um að gætt skuli jafnræðis og byggt á hlutlægum og gegnsæjum sjónarmiðum. Því sé afar hæpið að reglugerð verði breytt þannig að garðyrkjustöðvar verði skilgreindar sem þéttbýlisstaðir, enda myndi það bitna á öðrum viðskiptavinum.

„Það er reyndar vandséð hvaða ávinning garðyrkjubændur telja sig hafa af því að skilgreina staðsetningu garðyrkjustöðva upp á nýtt, þar sem þeir njóta jafnræðis í dag í gegnum styrki hins opinbera. Frá árinu 2005 hefur flutningur og dreifing raforku til garðyrkjubænda verið niðurgreidd samkvæmt samningum sem gerðir voru á grundvelli aðlögunarsamnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá árinu 2002. Samningarnir fela í sér að landbúnaðarráðuneytið skuldbindur sig til að greiða niður flutning og dreifingu raforku til lýsingar plantna í gróðurhúsum með því að magnliðir í gjaldskrám orkufyrirtækja fyrir flutning og dreifingu eru greiddir niður um 95%. Í kjölfar niðurskurðar í ríkisútgjöldum á þessu ári var þetta hlutfall lækkað. Niðurgreiðslan er nú um 67% í þéttbýli, en 76% í dreifbýli og jafnar þar með verðið í þéttbýli og dreifbýli.

Þess má geta að á síðasta ári var meðalverð frá RARIK til Garðyrkjubænda fyrir dreifingu um 2,89 kr/ kWh, niðurgreiðslur ríkisins námu um 2,67 kr/kWh og greiddu Garðyrkjubændur því um 22 aura fyrir kWh að jafnaði, aðeins brot af því sem aðrir viðskiptavinir RARIK greiða. Þrátt fyrir niðurskurð á styrkjum hins opinbera, greiða Garðyrkjubændur enn mun lægra verð fyrir orkudreifingu en aðrir viðskiptavinir.

Að lokum er rétt að benda á að rafmagnsnotkun til garðyrkjulýsingar er í hámarki á þeim tíma ársins sem mest eftirspurn er eftir rafmagni í dreifikerfinu og framleiðslan dýrust," segir á heimasíða RARIK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert