Álag of mikið á héraðsdómstóla

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Endurritsgerðir hafa verið mikið vandamál hjá Héraðsdómi Reykjavíkur um margra ára skeið, að sögn Helga I. Jónssonar, dómstjóra. Hins vegar hafi menn reynt af fremsta megni að afgreiða dómsgerðirnar eins fljótt og auðið er. Nú keyrir um þverbak í málafjölda.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms, um að maður sem í sumar var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 4½ árs fangelsi fyrir nauðgun, sæti gæsluvarðhaldi þar til mál hans verður tekið fyrir í Hæstarétti. Ástæðan er sú að óhæfilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu dómsgerða frá héraðsdómi. Maðurinn er laus en sætir farbanni til 22. desember nk.

Helgi segir þetta hugsanlega fyrirboða þess sem koma skuli. „Undanfarin ár hefur verið gríðarlegt álag á dómstólum. Það er enn að vaxa og ég hygg að við sjáum ekki nema toppinn á ísjakanum. Við erum því ekki farin að sjá neitt ennþá.“

Töluverð vinna fylgir dómsgerðum og fellur á dómritara. Meðal annars er um að ræða endurritun á öllum yfirheyrslum yfir ákærða og vitnum í málum sem áfrýjað er til Hæstaréttar. Dómritarar hafa sinnt þessum verkum á meðan laus tími gefst en að mestu í yfirvinnu. Vegna niðurskurðarkrafna er hins vegar yfirvinnubann hjá héraðsdómstólum. „Þetta þarf því engum að koma á óvart. Og um þarfa áminningu að ræða fyrir dómsmálaráðherra,“ segir Helgi.

Hæstiréttur vísaði til þess, að lögð hafi verið fram gögn sem sýni, að ríkissaksóknari óskaði strax 16. júlí eftir dómsgerðum í máli mannsins. Þau gögn hafi hins vegar ekki borist ríkissaksóknara þó að hálfur fjórði mánuður sé liðinn frá því óskað var eftir þeim. Engin haldbær skýring sé komin fram á þessum drætti. Þetta hafi meðal annars haft þau áhrif að málið sé ekki komið á dagskrá Hæstaréttar.

Helgi segir allan gang á því hversu langan tíma taki að afgreiða dómsgerðir. Það geti verið einn til tveir mánuðir en stundum dregist lengur. Áfrýjunum hafi hins vegar fjölgað mikið að undanförnu. Spurður hvort mat Hæstaréttar sé rétt segir Helgi að það fari eftir því hver metur hvað sé óhóflegur dráttur. „Ef hagsmunir liggja þeim megin að dæmdum nauðgara er sleppt þó þessi tími sé liðinn, að hans hagsmunir séu meiri en almennings, þá er það mat Hæstaréttar.“


Helgi I. Jónsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur.
Helgi I. Jónsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert