Fleiri heimili gætu farið í þrot

Innlend heimili og fyrirtæki eru gríðarlega skuldsett, að því er …
Innlend heimili og fyrirtæki eru gríðarlega skuldsett, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands. mbl.is/Ómar

Vegna mikillar skuldsetningar, gjaldmiðlaáhættu og útbreiddrar verðtryggingar skaðaði gengislækkun krónunnar efnahag innlendra aðila mun meira en ella. Haldi gengi krónunnar áfram að lækka mun skuldsettum heimilum og fyrirtækjum sem ekki geta staðið við skuldbindingar sínar fjölga og samdráttur einkaneyslu og fjárfestingar dýpka.

Í árslok 2007 námu skuldir heimilanna 220% og hafa haldið áfram að aukast

Innlend heimili og fyrirtæki eru gríðarlega skuldsett, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands. Skuldir íslenskra fyrirtækja í árslok 2007 námu rúmlega 300% af landsframleiðslu. Til samanburðar námu skuldir evrópskra og bandarískra fyrirtækja 70-80% af landsframleiðslu.

Á sama tíma námu skuldir íslenskra heimila um 220% af ráðstöfunartekjum þeirra en þær námu tæplega 180% í Bandaríkjunum og rétt yfir 100% á evrusvæðinu.

„Bæði skuldir og eignir innlendra fyrirtækja og heimila jukust mikið árin fyrir bankahrunið.

Efnahagsreikningar þeirra stækkuðu því gríðarlega og var hlutfall heildareigna heimila af hreinum auði t.d. orðið um 1,4 árið 2007. Það er töluvert meira en að jafnaði í öðrum OECD-ríkjum. Íslenskum heimilum var því hætta búin af skyndilegri lækkun eignaverðs, sem höggva myndi verulegt skarð í hreinan auð þeirra og kalla fram snarpa aðlögun útgjalda að lægra tekjustigi.

Hátt hlutfall skulda í erlendum gjaldmiðlum gerði þessa stöðu erfiðari en ella. Hlutfall gengisbundinna lána hækkaði hratt á síðustu árum og nam um 20% af skuldum heimilanna í árslok 2008. Samsvarandi hlutfall innlendra fyrirtækja var um 70% í júní sl. Sveitarfélög tóku einnig lán í erlendum gjaldmiðlum í töluverðum mæli og var hlutfall skulda þeirra í erlendum gjaldmiðlum orðið um 42% í árslok 2008," að því er segir í Peningamálum.

Lítið fjárfest á íbúðamarkaði á næstunni

Heimilin vörðu verulegum hluta tekna sinna og lánsfjár til íbúðafjárfestingar í góðærinu. Svipuð þróun átti sér stað víða erlendis. Hér á landi jókst íbúðafjárfesting um tæp 75% og íbúðaverð tvöfaldaðist að nafnvirði á milli áranna 2002 og 2007.

„Niðurstaðan varð sú sama og víða annars staðar: offramboð húsnæðis og óhjákvæmileg lækkun íbúðaverðs.

Í júní sl. voru liðlega 3.600 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu á ýmsu byggingarstigi, allt frá því að jarðvinna var hafin og til nær fullbúinna íbúða. Auk þess höfðu rúmlega 4.300 lóðir verið útbúnar til viðbótar með meðfylgjandi fjárfestingu sveitarfélaga í grunnkerfum þeirra svæða.

Því er ljóst að offramboð óseldra íbúða og ónýttra lóða mun halda aftur af íbúðafjárfestingu um þó nokkurt skeið. Framboð lánsfjár til íbúðafjárfestingar verður sömuleiðis af skornum skammti og eftirspurnin veikburða. Heimili eru líkleg til að halda að sér höndum að því er varðar stórtæka fjárfestingu þangað til að fjárhagslegt öryggi þeirra eflist á nýjan leik. Íbúðafjárfesting mun því haldast vel undir sögulegu meðaltali sínu þrátt fyrir nokkurn vöxt á árunum 2011 og 2012," að því er fram kemur í Peningamálum.

Verðlækkunin þegar 12-13% og mun lækka áfram

Velta á fasteignamarkaði hefur verið afar takmörkuð og hlutfall makaskipta hátt. Þetta hefur valdið vandkvæðum við mælingu íbúðaverðs, að því er segir í Peningamálum.

„Íbúðaverð hefur lækkað um 12-13% frá því að það náði hámarki að nafnvirði í janúar 2008. Að raunvirði nemur lækkunin um þriðjungi frá hæstu stöðu í október 2007. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að raunverð íbúðahúsnæðis muni halda áfram að lækka á næstu misserum."

Hátt hlutfall skulda fyrirtækja í erlendum gjaldmiðli

Rekstrarvandi fyrirtækja hefur aukist vegna gengislækkunar krónunnar, hruns bankakerfisins og minnkandi eftirspurnar. Minna framboð lánsfjár, hækkun skulda, þyngri greiðslubyrði og samdráttur tekna hefur komið illa niður á skuldsettum fyrirtækjum sem reiða sig á utanaðkomandi fjármögnun.

Fyrirtæki í þeim geirum sem helst nutu góðs af uppsveiflunni, t.d. í fasteignaviðskiptum, byggingariðnaði og innflutningi varanlegs neysluvarnings, hafa orðið einna verst úti. Vanskil hafa aukist og gjaldþrotum fjölgað.

Mörg fyrirtækja er kominn í hendur viðskiptabankanna. Verið er að endurskipuleggja skuldir og breyta rekstri fjölda fyrirtækja í samstarfi við lánardrottna, að því er segir í Peningamálum.

„Fyrir bankahrunið voru u.þ.b. 70% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja í erlendum gjaldmiðli. Þetta er töluvert hátt hlutfall en meira máli skiptir hvernig þær skuldir dreifast og hversu hátt hlutfall fyrirtækja með skuldir í erlendum gjaldmiðli hafa ekki gjaldeyristekjur til þess að standa undir greiðslubyrði af skuldunum. Þannig var hlutfall fyrirtækja með skuldir í erlendum gjaldmiðlum nokkru lægra, eða tæplega helmingur.

Flest stór og meðalstór fyrirtæki eru þó með gengisbundin lán og flest fyrirtæki sem eru eingöngu með lán í krónum eru lítil. Vegna þess að líftími lána í erlendum gjaldmiðli er almennt stuttur og aðgengi að erlendu lánsfé takmarkað er líklegt að hlutfall fyrirtækja með gengistryggð lán lækki næstu misserin. Fyrirtæki með gjaldeyristekjur munu þó áfram geta varið gjaldmiðlaáhættu hafi þau aðgang að gengistryggðum lánum," að því er segir í Peningamálum.

Peningamál Seðlabanka Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert