„Of miklar umbúðir“

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, og Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrisssjóða, skrifa …
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, og Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrisssjóða, skrifa undir viljayfirlýsinguna í gær. mbl.is/Golli

Lífeyrissjóðurinn Gildi var ekki meðal þeirra 20 lífeyrissjóða sem undirrituðu viljayfirlýsingu um byggingu nýs Landspítala í gær. Gildi hefur þó lýst sig reiðubúinn að koma að undirbúningnum. „Þetta var rætt á stjórnarfundi og mönnum fannst of miklar umbúðir felast í þessari stóru yfirlýsingu og miklu undirritunarathöfn,“ segir Vilhjálmur Egilsson, stjórnarformaður Gildis.  

„Við vildum ekki vera með á þessari yfirlýsingu en sendum sjálfstæða yfirlýsingu um að við vildum vera með í undirbúningnum. Almennt eru menn með málinu en vilja horfa á innihaldið en ekki umbúðirnar,“ segir Villhjálmur.

Stjórn Gildis sendi frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem afstöðu sjóðsins til hugsanlegrar þátttöku í byggingu sjúkrahússins er lýst. Þar lýsir stjórn lífeyrissjóðsins yfir vilja til samstarfs við stjórnvöld við að kanna hvort og með hvaða hætti sjóðurinn er tilbúinn til þess að koma að undirbúningi að byggingu nýs Landspítala. 

„Sérstaklega verði kannað með hvaða hætti sjóðurinn geti komið að fjármögnun verkefnisins. Aðkoma sjóðsins er háð því að áhætta og arðsemi verði ásættanleg fyrir sjóðinn. 

Í samræmi við stöðugleikasáttmála stjórnvalda og heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins um uppbyggingu atvinnulífsins er ein meginforsenda þessa verkefnis, að störf sem verða til við undirbúning og framkvæmd þess verði á vegum innlendra aðila og hafi áhrif á atvinnustigið hér á landi.

Endanleg ákvörðun um þátttöku í fjármögnun verkefnisins verður ekki tekin fyrr en samkomulag hefur náðst um fyrrgreind atriði og önnur sem tengjast uppbyggingu þess, arðsemi, áhættu og fyrirkomulagi fjármögnunar,“ segir í yfirlýsingu Gildis-lífeyrissjóðs um undirbúninginn að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingu Landspítalans.

Gildi er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins. Lífeyrissjóðirnir 20 sem stóðu að viljayfirlýsingunni sem forsvarsmenn sjóðanna og heilbrigðisráðherra undirrituðu í gær, eru með 83,22% af heildareignum lífeyrissjóða landsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert