Þingmaður leiðrétti rangfærslur sínar

Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson

Breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps fóru aldrei í gegnum kosningar, þótt Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi hafi haldið því fram í ræðustól Alþingis í gær. Þetta segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri þingflokks vinstri-grænna.

„Að fara með ósannindi úr ræðustól Alþingis ber ekki vott um vönduð vinnubrögð og hljóta þeir sem verða uppvísir að slíku að þurfa að leiðrétta ummæli sín á sama vettvangi, ellegar rýra trúverðugleika sinn. Ekki ætla ég að saka Sigurð Inga um að hafa beinlínis logið í ræðustól Alþingis í gær enda rétt að hann fái í þeim efnum að njóta vafans. Sigurð Inga kann að hafa misminnt eða hann kann að hafa fengið rangar upplýsingar og sagt það sem hann taldi vera satt og rétt.

Skipulagsbreytingin, þar sem gert er ráð fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár, var auglýst liðlega hálfu ári eftir að kosið var til sveitarstjórna og var ekki til sérstakrar meðferðar eða umfjöllunar í kosningabaráttunni sem snerist helst um skólamál. Orð Sigurðar Inga fá því ekki staðist.

Nú þegar Sigurði Inga hefur verið bent á villuna verður fróðlegt að sjá hvort hann virði gömul gildi og leiðrétti mál sitt á sama vettvangi og hann setti það fram eða hvort hann kjósi heldur að rýra eigin trúverðugleika," segir í yfirlýsingu frá Bergi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert