Minni þörf á skattahækkunum

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

 Vegna minni samdráttar og atvinnuleysis má reikna með að aðlögunarþörf ríkissjóðs minnki um 20 milljarða á næsta ári og verði 52 milljarðar í stað 72 milljarða.„Það þýðir að ríkið getur dregið úr nauðsynlegum skattahækkunum sem þessu nemur,“ sagði Jóhanna sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag. 

Umræða fór fram á Alþingi í dag um stöðu efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi umræðunnar og var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra til andsvara.

Bjarni sagði mikil vonbrigði að ekki hafi verið gengið lengra eftir vaxtalækkunarbrautinni. Bjarni sagði að stærstu mistök ríkisstjórnarinnar væru að einblína ekki á aðgerðir í efnahagsmálum. Finna þurfi sem breiðasta sátt um hvernig staðið verði að niðurskurði og eins þurfi að finna leiðir til að fá tekjustofna ríkisins til að taka við sér. Sagði Bjarni að sjálfstæðismenn teldu óskynsamlegt við núverandi aðstæður að bæta skattahækkunum ofan í ástandið. Hins vegar væri eðlilegt að skattleggja séreignalífeyrissparnað fyrir fram í staðinn fyrir að það yrði gert eftir á.

Bjarni sagði að þær leiðir sem ríkisstjórnin ætlaði að fara væru óskynsamlegar. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar væru að auka skatta einstaklinga á næsta ári um 37 milljarðar á sama tíma og spáð væri miklum samdrætti kaupmáttar. Þessi vinnubrögð gengju ekki lengur. Ríkisstjórninni hefði tekist að eyðileggja samstöðuna með aðilum vinnumarkaðarins sem náðist í sumar með gerð stöðugleikasáttmálans.

„Það sem okkur skortir er festa og skýr sýn á ástandið og að ríkisstjórnin geri a.m.k. tilraun til að skapa sátt um aðferðafræðina,“ sagði Bjarni. Minnti hann á að sjálfstæðismenn hefðu lagt sitt af mörkum með framlagningu ákveðinna efnahagstillagna.

Óskaði hann eftir svörum ríkisstjórnarinnar um aðrar leiðir sem settar hefðu verið fram til að auka tekjur ríkisins og hvort til greina kæmi að fella úr fjárlagafrumvarpinu allar nýjar hugmyndir um skatta.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði að ramminn um efnahagslífið til næstu ára hafi nú verið mótaður en gríðarlega mikið hafi áunnist að undanförnu. Vonandi yrði áframhald á lækkun vaxta í næsta mánuði.

Horfur væru á að verðbólgan færi hratt dvínandi á næstunni. Aukinn gengisstöðugleiki hafi ekki verið á kostnað gjaldeyrisforðans.  Samdrátturinn hefði orðið minni en búist var við. „Við vonumst til að traust á íslenska fjármálakerfinu aukist hratt,“ sagði hún. Þá væri atvinnuleysi ekki eins mikið og óttast var.

Þá minnti hún á að unnið væri að undirbúningi nokkurra stórframkvæmda. Útboð á veigamiklum samgönguframkvæmdum væru vel á veg komnar. Einnig væru t.d. viðræður um Búðarhálsvirkjun í fullum gangi.

Jóhanna hafnaði því að tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu iðgjalda í lífeyrissjóðina væri skynsamleg leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert