Reisugilli í Tónlistarhúsinu

Starfsmenn í Tónlistarhúsinu fagna því með reisugilli að aðalsperrur eru …
Starfsmenn í Tónlistarhúsinu fagna því með reisugilli að aðalsperrur eru komnar upp. Árni Sæberg

Reisugilli fyrir starfsfólk í Tónlistarhúsinu og ráðstefnumiðstöðinni við Austurhöfn er haldið í dag að gömlum og góðum sið. Tilefnið er að búið er að setja upp ellefu stórar stálsperrur sem liggja yfir aðaltónleikasalinn. Sú síðasta fór upp í fyrradag og þá var flaggað.

Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, sagði að endanlegt þak sé ekki komið á húsið. Ofan á sperrurnar mun koma háaloft og endanlegt þak þar ofan á.

Uppsteypa er langt komin og henni lýkur í þessum mánuði, að sögn Stefáns.  Vinna við ytra byrði hússins hófst fyrir nokkru. Búið er að setja upp svolítið af gleri á vesturhlið hússins. Þrjár tegundir af gleri munu mynda ytra byrði hússins. Hefðbundnir glerveggir, mynstraðir glerveggir og stuðlabergsglerveggir.

Byrjað er að setja upp grindina fyrir glerið. Svonefnt stuðlabergsgler (quasi brick) eða glerkubbarnir verða á suðurhlið hússins. Nú eru komnir um 100 glerkubbar á byggingarstaðinn og verða þeir fyrstu settir upp í byrjun desember. 

Stefán sagði að uppsetning á glerhjúpnum um húsið muni standa lungann úr næsta ári. Það verður því ekki fyrr en eftir um ár sem endanlegt útlit verður komið á allt húsið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert