Fréttaskýring: Íslenskukunnátta lykill að þjóðfélaginu

78% svarenda í nýrri viðhorfskönnun eiga barn á Íslandi.
78% svarenda í nýrri viðhorfskönnun eiga barn á Íslandi.

Samkvæmt nýrri viðhorfskönnun gerðri meðal tæplega 800 innflytjenda hérlendis segist helmingur svarenda hafa verið í starfi hér á landi þar sem menntun þeirra nýttist ekki að fullu. Um 54% sögðu ástæðu þess vera að þá skorti íslenskukunnáttu, en 23% sögðust ekki hafa fengið starf við hæfi. Um 74% svarenda höfðu ekki reynt að fá nám sitt metið hér á landi, en rúm 50% svarenda höfðu lokið námi á háskólastigi. Fjórðungur þátttakenda hafði áhuga á því að stofna sitt eigið fyrirtæki og nefndu flestir verslunar- og þjónustufyrirtæki (48%) en næstflestir veitingahúsarekstur (24%).

Rannsóknin var samstarfsverkefni Fjölmenningarseturs á Ísafirði og Félagsstofnunar Háskóla Íslands og styrkt af félags- og tryggingamálaráðuneyti, Reykjavíkurborg, Lýðheilsustofnun, Þróunarsjóði innflytjenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.

80% finnst gott að búa á Íslandi

Markmið rannsóknarinnar var að safna haldbærum upplýsingum um ýmsa þætti sem tengjast búsetu innflytjenda hér á landi. Spurt var um vinnu innflytjenda, menntun þeirra og reynslu, tungumálakunnáttu, heilsufar, hvaða upplýsingar þeir hafa um réttindi sín og skyldur, hvort þeir nýta sér þjónustu sveitarfélaga eða verkalýðsfélaga, skólagöngu barna þeirra og þátttöku þeirra í félagsstarfi, svo fátt eitt sé nefnt.

Yfir 40% þátttakenda áttu uppruna sinn í Póllandi, en auk þeirra var sérstök áhersla lögð á að fá viðhorf innflytjenda frá Taílandi, Filippseyjum, Serbíu, Svartfjallalandi, Króatíu, Bosníu-Herzegóníu, Slóveníu, Eistlandi, Lettlandi og Litháen þar sem þetta eru fjölmennustu hópar innflytjenda sem nýlega hafa komið til Íslands.

Tæp 80% svarenda sögðu það frekar eða mjög gott að búa á Íslandi og yfir 60% svarenda fannst þeir hafa aðlagast íslensku samfélagi frekar vel eða mjög vel. Tæp 40% þátttakenda bjuggu í eigin húsnæði, 78% áttu barn eða börn á Íslandi og þriðjungur svarenda átti íslenskan maka.

Mörgum finnst íslenskan erfið

Um 40% þátttakenda sögðust hafa frekar eða mjög góðan skilning á íslensku, en 33% þeirra frekar eða mjög slæman skilning á tungumálinu. Rúmur þriðjungur svarenda gat tjáð sig frekar eða mjög vel á íslensku, en 39% þeirra töldu sig geta tjáð sig frekar eða mjög illa. Meira en helmingi þátttakenda fannst það frekar eða mjög erfitt að læra íslensku. Í þeim hópi sögðu flestir ástæðuna vera þá að íslenskan væri mjög ólík móðurmáli þeirra (66%). Fjórðungur sagðist aldrei hafa sótt íslenskunámskeið, en mikill meirihluti svarenda (86%) hafði áhuga á því að læra íslensku eða læra málið betur.

Rannsóknina má lesa í heild sinni á vef Fjölmenningarseturs undir rannsóknir (www.mcc.is).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert