Unglingar mótmæla niðurskurði

Unglingarnir ætla að mótmæla fyrir framan bæjarskrifstofurnar í Hafnarfirði á …
Unglingarnir ætla að mótmæla fyrir framan bæjarskrifstofurnar í Hafnarfirði á miðvikudag. RAX

Unglingar í Hafnarfirði eru mjög ósáttir við niðurskurð á fjármunum til félagsmiðstöðva í bænum. Þeir ætla að hitta bæjarráðsmenn í fyrramálið og stefna öllum unglingum í 8.-10. bekk í bænum á mótmælafund framan við Ráðhús Hafnarfjarðar kl. 12.30 á miðvikudaginn. 

Fulltrúar nemendaráða allra sjö grunnskóla Hafnarfjarðar hittust nú síðdegis til að leggja á ráðin um mótmælin. Gauti Jónasson, formaður nemendaráðs Víðistaðaskóla, var á fundinum í dag.

„Við erum að mótmæla niðurskurðinum og því að við höfum aldrei verið spurð um þær skipulagsbreytingar sem verið er að gera,“ sagði Gauti. Hann sagði að búið sé að skera niður framlög til félagsmiðstöðva í bænum um fjórðung og að það muni koma niður á hópastarfi og annarri starfsemi. Enn meiri niðurskurður standi til.

Þá sagði Gauti að skera eigi niður stöðugildi og segja öllum forstöðumönnum félagsmiðstöðvanna upp. Í framtíðinni eigi einn forstöðumaður að vera yfir hverjum þremur félagsmiðstöðvum. Hann sagði unglingana vilja að niðurskurðurinn verði ekki meiri en hann er nú þegar orðinn. 

Formenn nemendaráða grunnskólanna í Hafnarfirði ætla að hitta bæjarráðsfulltrúa á fundi kl. 11 í fyrramálið. „Við ætlum að fá útskýringar og spyrja hvers vegna við vorum ekki spurð. Líka hvað eigi að gera ef þessi breyting virkar ekki,“ sagði Gauti.

Fjöldamótmæli verða síðan framan við Ráðhús Hafnarfjarðar í hádeginu á miðvikudag. Mótmælafundurinn á að hefjast kl. 12.30 og þangað er stefnt öllum nemendum í 8.-10. bekk grunnskóla í Hafnarfirði.  Þar verða m.a. ræðuhöld.

„Við ætlum að láta heyra í okkur því við erum ekki sátt við þetta,“ sagði Gauti.

Gauti Jónasson, formaður nemendaráðs Víðistaðaskóla.
Gauti Jónasson, formaður nemendaráðs Víðistaðaskóla.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert