Í beinni andstöðu við fyrri yfirlýsingar

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni vekur litla hrifningu hjá …
Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni vekur litla hrifningu hjá LÍÚ. Brynjar Gauti

Þær breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem boðaðar eru í nýju frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stjórn fiskveiða eru að  stærstum hluta til vansa að mati Landsambands íslenskra útvegsmanna.

„Við erum ósáttir við flest sem þar kemur fram,“ segir Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. Segist hann raunar ekki trúa því, að allar þær breytingar sem þar eru kynntar eigi eftir að verða að lögum enda sé það í beinni andstöðu við fyrri yfirlýsingar  ríkisstjórnarinnar.

Þannig hafi verið skipuð nefnd til að  endurskoða lögin um stjórn fiskveiða sem hafi það að markmiði að skapa atvinnugreininni góð  rekstrarskilyrði til langs tíma og ná sátt um stjórn fiskveiða.

Með yfirlýsingu  ríkisstjórnarinnar fyrir síðustu mánaðamót hafi verið staðfest að engin breyting hafi orðið á þeim sáttafarvegi sem málið var sett við gerð stöðugleikasáttmálans í sumar. Engu að  síður geri lagafrumvarpið ráð fyrir  bráðabirgðaákvæði um veiðistjórnun á skötusel og gjaldtöku fyrir úthlutun aflamarks hans og slíkt stangist á við þessar fyrir  yfirlýsingar stjórnvalda.

Ákvarðanir um heimild til flutnings aflamarks frá skipi eigi þá ekki síður heima hjá  endurskoðunarnefndinni að mati Friðriks Jóns, enda í takt við hugmyndir LÍÚ um að útgerðarfyrirtæki veiði meira af sínu  aflamarki sjálf í stað þess að  leigja það frá sér.

Sveigjanleikinn mikilvægur

LÍÚ gerir einnig athugasemd við að dregið verði úr heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. „Þetta er mjög óráðið,“ segir Friðrik Jón. Sveigjanleikinn sem felist í því að geta flutt aflamörk milli  fiskveiðiára sé mjög mikilvægur og geri mönnum kleift að draga úr högginu sem fylgt geti fyrirhuguðum skerðingum. „Það er nýbúið að auka heimildina, einmitt af þessum ástæðum, þannig að þetta er mjög sérstakt.“

Aukin línuívilnun sé þá ekki síður misráðin. Línuívilnunina ætti frekar að fella niður, enda feli hún í sér mismunun milli útgerða og komi í veg fyrir að allir sitji við sama borð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert