Kvörtun send til Barnaverndarstofu

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir

Dögg Pálsdóttir lögmaður telur að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki fylgt ákvæðum barnaverndarlaga þegar hún ákvað að taka 9 ára dreng úr umsjá ömmu sinnar og senda í fóstur. Móðir drengsins hefur forræði yfir honum og eldri bróður hans. Barnaverndarnefnd hefur vistað þá báða hjá ömmu þeirra.

Dögg vildi ekki tjá sig sérstaklega um yfirlýsingu Barnaverndarnefndar frá því í kvöld. Hún sagði að á morgun verði kvörtun vegna vinnubragða Barnaverndar Reykjavíkur send til Barnaverndarstofu. Þess verður óskað að Barnaverndarstofa kanni hvort vinnubrögð Barnaverndar í málinu hafi verið lögum samkvæm.

Dögg sagði að Barnaverndarnefndin sé búin að ákveða að funda um málið næstkomandi þriðjudag. Hún telur að í því felist að skort hafi á rétt vinnubrögð í málinu hingað til. 

„Það er búið að reyna að stöðva þetta til að fá einhverja kæranlega ákvörðun. Eins og málið hefur blasað við við umbjóðendum mínum líta þeir svo á að eina ákvörðunin sem Barnaverndarnefnd hefur tekið sé að börnin eigi að vera hjá ömmu sinni þar til dómur í forsjármálinu liggur fyrir,“ sagði Dögg.

Hún sagði að óvænt virðist hafa verið tekin ákvörðun um að senda yngri drenginn í fóstur. Ekki sé hægt að setja barn í varanlegt fóstur nema að svipta fyrst foreldri forsjárréttinum. Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki og óvíst að af því verði.

„Það má vel vera að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur geti sett drenginn í aðra vistun í miðju forsjárferlinu, en hún verður þá að fella úr gildi þá vistun sem er í gildi og gefa þeim aðila sem er með barnið í vistun kost á því að mótmæla þeirri ráðstöfun. Umbjóðendur mínir hafa ekki orðið varir við að það hafi verið gert.

Hugsanlega ætlar Barnaverndarnefnd Reykjavíkur að taka þá ákvörðun á fundinum á þriðjudag. Ýmislegt bendir til að þá eigi að koma málinu  í löglegan farveg,“ sagði Dögg. 

Hún sagði að það sé staðreynd að engin skrifleg ákvörðun liggi fyrir um fyrrgreinda fósturráðstöfun og að engin skrifleg ákvörðun liggi heldur fyrir um að búið sé að fella úr gildi vistun drengsins hjá ömmunni.  „Það eina sem umbjóðendur mínir hafa um fósturráðstöfunina er bréf sem amman fékk eftir fund á fimmtudag - eftir að hún óskaði eftir að fá skriflega það sem henni var kynnt munnlega á fundinum.

Bréfið var einungis undirritað af starfsmanni en var ekki ákvörðun nefndarinnar.  Starfsmenn ákveða ekki að setja börn í fóstur,“ sagði Dögg.

Ákveðið hefur verið að vista drenginn áfram á vistheimili og því fer hann ekki í fóstrið sem Barnavernd var búin að ákveða á meðan Barnaverndarnefnd fjallar um málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert