Ekki hugsað um sóknarbörnin

Safnað er undirskriftum á áskorun um að efnt verði til …
Safnað er undirskriftum á áskorun um að efnt verði til almennra prestskosninga á Selfossi. mbl.is/Þorkell

Við ákvörðun um fyrirkomulag sameiningar Hraungerðis- og Selfossprestakalla var greinilega ekki hugsað um hagsmuni sóknarbarna, að mati sóknarbarns sem stendur að söfnun undirskrifta á áskorun til biskups Íslands um að nýr sóknarprestur verði kosinn í almennum prestskosnngum.

„Ástæðan er einföld. Eins og flestir vita hefur ráðningartími séra Óskars [H. Óskarssonar afleysingaprests] sífellt verið framlengdur vegna erfiðra mála sem  hafa verið í gangi hér í sókninni og flestir þekkja. Óskar er kominn vel að stað með undirbúning fermingarbarna, sem eiga að fermast næst vor og ríkir almenn sátt um störf hans. Þegar þessi ákvörðun var tekin hefur greinilega ekki verið hugsað um hagsmuni sóknarbarnanna,“ segir Sigríður Jensdóttir á Selfossi sem unnið hefur að undirskriftasöfnuninni, í svari við spurningu blaðamanns.

„Það er algjört skilyrði að komið verði á ró innan safnaðarins eftir klofning
og deilur vegna erfiðra mála sem hafa verið í gangi hér í sókninni alltof
lengi,“ bætir hún við.

Komið verði á friði og ró

„Við erum alls ekki að mótamæla sameiningunni sem slíkri. Það er forgangsverkefni að koma á friði og ró í söfnuðinum, eins og fram
hefur  komið í máli formanns sóknarnefndar,“ svarar Sigríður þegar hún er spurð að því hvort henni þætti ekki gott að fá tvo presta í sóknina. 

Ef það gerist ekki nú þurfa Selfyssingar að bíða þar til annar hvor presturinn hættir, eða 14 til 15 ára miðað við núverandi aðstæður og reglur Þjóðkirkjunnar um sameiningu prestakalla. „Við erum að fara fram á að sóknin fái á lýðræðislegan hátt að velja sér sóknarprest. Það er mín skoðun að kirkjan hljóti að eiga að hlusta á vilja sóknarbarnanna en feli sig ekki á bak við þær reglur, sem þú vísar til,“ segir Sigríður í svari sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert