Krefst kyrrsetningar á eignum

Embætti sérstaks saksóknara hefur krafist kyrrsetningar á eignum Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, í tengslum við rannsókn á hlutabréfaviðskiptum Baldurs á síðasta ári. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Baldur seldi hlutabréf í Landsbankanum hinn 17. september 2008 en í byrjun október tók skilanefnd Landsbankann yfir. Fjármálaeftirlitið fjallaði um málið fyrr á þessu ári með það að markmiði að skera úr um hvort Baldur hefði búið yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans, meðal annars í krafti stöðu sinnar sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.  Stofnunin vísaði málinu síðan til sérstaks saksóknara síðsumars.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 að þetta væri í fyrsta skipti sem embætti sérstaks saksóknara beitti lagaheimild um kyrrsetningu eigna í tengslum við rannsókn mála. Krafan er jafn há og söluandvirði hlutabréfanna, sem Baldur seldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert