Klár og hrein tengsl Icesave og ESB

Ásmundur Einar Daðason á aðalfundi Heimssýnar um síðustu helgi.
Ásmundur Einar Daðason á aðalfundi Heimssýnar um síðustu helgi. mbl.is/Kristinn

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag, að í hans huga væru klár og hrein tengsl, þótt óbein séu, á milli Icesave-málsins og Evrópusambandsins.

„Eins og ég les í þessi spil finnst mér málið liggja þannig: Ísland sækir um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í þeim lánasamningum er kveðið á um að ljúka skuli Icesave. Í norrænu lánasamningunum er kveðið á um að við eigum að standast endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill ekki setja af stað endurskoðun hér fyrr en búið er að ganga frá Icesave og þar af leiðandi liggja norrænu lánin í frosti þangað til. Síðan eru það Bretar og Hollendingar, með Evrópusambandið sér við hlið, sem hóta  því að stöðva afgreiðslu lánsins frá AGS. Þannig að í mínum huga eru klár og hrein og skýr tengsl Evrópusambandsins við Icesave-málið með þessum hætti," sagði Ásmundur Einar.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði að menn mættu ekki gleyma því, að Íslendingar beri ábyrgð á Icesave-skuldbindingum. „Það voru Íslendingar sem fóru út í heim, stofnuðu til þessara skuldbindinga og lögðu á okkar herðar," sagði Árni Þór.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, að ábyrgð einstakra manna á Íslandi á Icesave leiddi ekki til þess, að hægt sé að samþykkja hvaða samkomulag við Breta og Hollendinga sem er í þessu máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert