Mikill verðmunur á bökunarvöru

Það borgar sig að kanna verð áður en bakað er …
Það borgar sig að kanna verð áður en bakað er fyrir jólin mbl.is/Golli

Mikill verðmunur var á bökunarvörum þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum á landinu á mánudag.  Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í rúmlega helmingi tilfella, 26 vörum af þeim 49 vörum sem kannaðar voru reyndust ódýrastar í Bónus.  Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 9 tilvikum.

Oftast dýrast hjá Nóatúni

Nóatún var oftast með hæsta verðið eða á 17 af þeim 49 vörum sem skoðaðar voru en Samkaup Úrval var næst oftast með hæsta verðið eða á 16 vörum, að því er segir á vef ASÍ.

386% verðmunur á negulnöglum

Mikill verðmunur reyndist á algengum bökunarkryddum sem voru umtalsvert ódýrari í Fjarðarkaupum en öðrum verslunum. Mestur verðmunur í könnuninni var á ódýrasta kílóverði af negulnöglum sem voru dýrastir 10.455 kr/kg í Hagkaupum en ódýrastir 2.150 kr/kg í Fjarðarkaupum sem er 386% verðmunur.

Af öðrum vörum má nefna að lægsta verð á ódýrasta fáanlega kókosmjöli var 516 kr/kg í Nettó, en 1.356 kr/kg í Nóatúni þar sem verðið var hæst, verðmunurinn er 163%.Ódýrasta fáanlega hveitið kostaði 87 kr/kg í Bónus, en 146 kr/kg í Hagkaupum þar sem það var dýrast, verðmunurinn er 68%, samkvæmt vef ASÍ.

59% verðmunur á eggjum

Ódýrasta fáanlega kílóverð á eggjum var 503 kr/kg í Bónus þar sem þau voru ódýrust en 799 kr/kg í Nettó þar sem þau voru dýrust, verðmunurinn er 59%.  Ódýrasta fáanlega verð á ferskum döðlum var 595 kr./kg í Krónunni en þær kostuðu 2.396 kr/kg í Samkaupum Úrvali þar sem þær voru dýrastar, verðmunurinn er 303%.

Minnstur verðmunur í könnuninni reyndist vera á mjólk, rjóma og AB-mjólk, á bilinu 8-15%.

Illa verðmerkt í Kosti, nýrri lágvöruverðsverslun

„Verðmerkingum í Kosti nýrri lágvöruverðverslun í Kópavogi, var mjög ábótavant þegar könnunin var framkvæmd.  Athygli vakti að tæplega helmingur þeirra vara sem kannaðar voru og fengust í versluninni voru ekki verðmerktar. Þetta er slæmt og kemur í veg fyrir að neytendur geti gert virkan verðsamanburð milli verslana," að því er segir á vef ASÍ.

Til að gera raunhæfan verðsamanburð fyrir neytendur notar Verðlagseftirlit ASÍ mælieiningaverð í könnuninni.  Þá er skoðað kíló-, lítra- eða stykkjaverð á viðkomandi vöru en upplýsingar um mælieiningaverð ber að veita á hilluverðmerkingum verslana.

Sjá nánar um verðkönnunina á vef ASÍ
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert