Stangast ekki á við stjórnarskrá

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Ómar Óskarsson

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði við umræðu um Icesave-málið á Alþingi í dag, að við vinnu nefndarinnar við frumvarpið um ríkisábyrgðina hefði ekkert komið fram sem benti til að það stangaðist á við stjórnarskránna.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Guðbjart út í málið og vísaði m.a. í grein Sigurðar Líndal lagaprófessors sem birt var í Fréttablaðinu í dag. Í henni segir Sigurður að merkilegt megi heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið og hvort ekki þurfi að huga að slíku með tilliti til stjórnarskrár.

Guðbjartur sagði málið hafa verið rætt á sérstökum lögfræðingafundi, s.s. hvort einhver lögfræðilegur vafi leiki á varðandi stjórnarskrána og hvort málsmeðferðin hafi verið í anda hennar. Guðbjartur sagði ekkert hafa komið fram í þeirri umræðu að um stjórnarskrárbrot væri að ræða.

Birgir sagði það skyldu þingnefnda að kanna til þrautar alvarlegar athugasemdir sem fram hafa komið um stjórnarskrárþátt málsins og gagnlegt væri ef rökstuðningur lægi fyrir um að málið stangist ekki á við stjórnarskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert