Gagnrýnir stjórnarandstöðuna

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Það sem stjórnarandstæðan hefur lagt til uppbyggingar efnahagskerfisins, er í öfugu hlutfalli við ábyrgð hennar á því hvernig fyrir þjóðinni er komið, sagði sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingar sem stendur nú yfir.

 Hún sagði ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafa byggt upp „brjálæðislegt“ skattkerfi. „Það skattkerfi sem hér þróaðist á árunum 1995 – 2005 var ekki sjálfbært. Heildarskattbyrðin jókst meira en hjá nokkru öðru OECD ríki. Skattbyrði jókst mest í lægri tekjuhópunum en lækkaði verulega hjá hátekjufólki.“

Jóhann gagnrýndi jafnframt nýlegar tillögur ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins um að draga úr útgjöldum m.a. til mennta- og menningarmála. Sagði hún sjálfstæðismennina ungu greinilega enn hafa óbilandi trú á markaðnum þrátt fyrir hrun markaða. 

 Stefna á austurrísku leiðina

„Við stefnum að því að leiða hina svokölluðu „austurrísku leið“ í lög, en hún snýr að heimildum lögreglu til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili, sem kæmi þá í stað þess að fórnarlömb ofbeldisins þurfi að yfirgefa heimili sitt sér til verndar,“sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingar, við dynjandi lofatak fundargesta.

Jóhanna sagði að leggja verði áherslu á að hemja ofbeldisseggi, hvort sem þeir eru inni á heimilum, í Vítisenglum eða erlendum glæpasamtökum. Mikilvægt sé að þolendur ofbeldisins beri ekki allan fjárhagslegan og andlega skaða.

Sagði Jóhanna, að ársins 2009 verði minnst sem ársins þegar Íslendingar tóku ákvarðanir um að breyta stjórnarháttum sínum og lífsgildum.

„Við erum að beita okkur fyrir stefnubreytingu í skattamálum, stefnubreytingu í jafnréttismálum, stefnubreytingu í umhverfismálum, stefnubreytingu í sjávarútvegsmálum, stefnubreytingu í málum stjórnkerfis, réttarkerfis, stjórnsýslu og lýðræðis, stefnubreytingu í skipulagi fjármálastofnana, stefnubreytingu í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og stefnubreytingu í Evrópumálum."

Ræða Jóhönnu í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert