Finnur Sveinbjörnsson hættir

Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Arion banka.
Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Arion banka. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Starf bankastjóra Arion banka verður auglýst til umsóknar þegar ráðningarsamningur við Finn Sveinbjörnsson, núverandi bankastjóra, rennur út um áramót. Mun Finnur ekki sækja um starfið. Greindi hann frá þessu á fundi með starfsmönnum bankans rétt í þessu.

Tilkynnti hann jafnframt að skilanefnd gamla Kaupþings hefði ákveðið að eignast 87 prósenta hlut í Arion. 

Skilanefnd Kaupþings mun á næstu dögum auglýsa bankastjórastarf Arion bank laust til umsóknar. Segir nefndin að það sé mat stjórnar Arion banka og skilanefndar Kaupþings að með því að hafa þennan háttinn á við ráðningu nýs bankastjóra aukist traust viðskiptavina og kröfuhafa á bankanum og starfsemi hans.

Fram kemur í sameiginlegri tilkynningu skilanefndar Kaupþings og fjármálaráðuneytisins, að skilanefndin leggi fram 66 milljarða í stað ríkisins en við fjármögnun bankans skuldbatt ríkið sig til að leggja bankanum til 72 milljarða króna í eigið fé. Í samkomulagi við ríkið felst að ríkið leggur Arion banka til víkjandi lán í erlendri mynt sem hækkar eiginfjárgrunn hans í 16%.

Í tilkynningunni segir, að skilanefndin telji að virkt eignarhald í Arion banka muni hámarka verðmæti þeirra eigna sem fluttar voru á milli bankanna í október 2008. 

Hlutafé Arion banka er rúmlega 72 milljarðar króna og eiginfjárþáttur A er 12%. Bankinn er fullfjármagnaður og lausafjárstaða hans traust. Bankinn hefur skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu frá stofnun í október 2008. Í tilkynningunni segir, að með aðkomu skilanefndar verði Arion banki öflugur banki og vel í stakk búinn til að leiða uppbyggingu íslensks efnahagslífs, einstaklingum og fyrirtækjum í landinu til góða.

Ákvörðun skilanefndar er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Skilanefnd Kaupþings fer með eignarhald bankans fyrir hönd kröfuhafa í gegnum sérstakt eignarhaldsfélag og Arion banki verður því sjálfstætt dótturfélag.  Skilanefnd skipar fjóra stjórnarmenn bankans af fimmen íslenska ríkið skipar einn. Stefnt er að því að fulltrúar skilanefndar í nýrri stjórn verði tveir erlendir og tveir innlendir sérfræðingar, þar af einn úr skilanefnd. Ný stjórn bankans verður skipuð þegar samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert