Vill að Hanna Birna víki

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/ÞÖK

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, boðar að hann muni á fundi borgarstjórnar í dag leggja fram bókun þar sem þess verði krafist að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, víki úr embætti  á meðan sterkar vísbendingar um pólitíska spillingu hjá henni séu rannsakaðar ofan í kjölinn.

Vísar Ólafur til fréttar í DV nýlega um að Hanna Birna  hafi þegið fjárframlög frá Landsbankanum í prófkjöri fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Hún hafi síðan gengið hart fram fyrir hagsmuni bankans og eigenda hans þegar hún barðist fyrir staðsetningu listaháskóla á mótum Laugavegar og Frakkastígs.

Þá vill F-listinn í borgarstjórn að þegar verði hafin vinna við gerð nýs skipulags Vatnsmýrarinnar, sem geri m.a. ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar áfram, að ný flugstöð verði reist á svæði fyrri flugstöðvar, að Umferðarmiðstöð Íslands verði áfram á sínum stað og að fallið verði frá byggingu samgöngumiðstöðvar austan flugvallarins.

Mun listinn leggja fram tillögu þessa efnis á fundi borgarstjórnar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert