Dómur mildaður yfir kunnum síbrotamanni

Hveragerði.
Hveragerði. www.mats.is

Hæstiréttur hefur dæmt kunnan síbrotamann í 2 mánaða fangelsi fyrir innbrot í hús í Hveragerði. Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt manninn í 10 mánaða fangelsi en Hæstiréttur taldi, að brot mannsins ætti að vera hegningarauki við 10 mánaða dóm, sem hann hlaut í Héraðsdómi Reykjavíkur í sumar fyrir fjölda annarra brota.

Málið, sem kom til kasta Hæstaréttar, kom upp í júní á síðasta ári en þá kom kona að manninum í húsi í Hveragerði. Hafði maðurinn þá lagt skartgripi á náttborð og hjónarúm og falið hálsmen undir kodda í rúminu og reyndi að varna konunni inngöngu í herbergið. 

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands kom fram að konan þekkti manninn úr sjónvarpinu en hann hefur m.a. komið fram í sjónvarpsþáttum og auglýsingum undir nafninu Lalli Jones. Hefði konan spurt manninn hvern fjandann hann væri að gera þarna. Maðurinn hefði þá sagst vera að leita að síma til að hringja á leigubíl. Konan sagðist þá hafa séð skartgripina á rúminu og orðið verulega reið. 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands var kveðinn upp í júní í sumar en daginn áður hafði maðurinn verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir  11 þjófnaðarbrot, eignaspjöll, húsbrot og fíkniefnabrot. Þá hafði hann setið í gæsluvarðhaldi frá því í apríl.

Maðurinn á að baki langan brotaferil, eða allt frá árinu 1969 og hefur fengið yfir fjörutíu dóma fyrir þjófnað auk fjölda dóma fyrir önnur afbrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert