Hanna Birna: Standa vörð um velferðarþjónustu

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri. mbl.is/Golli

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði í ræðu sinni um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 að staðinn yrði vörður um velferðarþjónustu og um þjónustu við börn.

Vegna betra efnahagsástands hefði verið hægt að lækka hagræðingarkröfu til menntasviðs úr 5,59% í 4,1%. Ekki yrði dregið úr fjárframlögum til velferðarsviðs. Til að ná fram hagræðingu á þessum sviðum yrði yfirbygging minnkuð, dregið úr aðkeyptri vinnu og frestað að ráða í lausar stöður nema þær væru nauðsynlegar fyrir grunnþjónustuna.

Hagræða þarf fyrir 3 milljarða króna

Hanna Birna sagði að alls þyrfti að hagræða í rekstri Reykjavíkurborgar um ríflega þrjá milljarða. Hún lagði mikla áherslu á að hvorki skattar né gjaldskrár vegna grunnþjónustu á Reykvíkinga yrðu hækkaðir. Leikskólagjöld yrðu óbreytt, áfram yrði 100% systkinaafsláttur og gjald vegna skólamáltíða ekki heldur.

Fram kom hjá borgarstjóra að kennslustundum í grunnskólum myndi ekki fækka og þjónustu í leikskólum yrði óbreytt.

 Hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir skattahækkanir sem legðust þungt á einstaklinga og fyrirtæki. „Við getum ekki skattlagt okkur út úr þeirri kreppu sem við erum í," sagði Hanna Birna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert