Styðja smölun villifjár í Tálkna

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. www.mats.is

Bæði dýraverndarráð og Bændasamtök Íslands hafa lýst stuðningi við að villifé, sem eftir er í Tálkna í Tálknafirði, verði fangað og því komið undir manna hendur.

Á fundi dýraverndaráðsins í nóvember var farið yfir sögu málsins og eftirfarandi bókun lögð fram: „Tálknaféð er útigangsfé sem hefur orðið eftir á svæðinu vegna lélegrar smalamennsku og uppflosnun búskapar, einkum undanfarin 20-25 ár, og hefur ekki verið sinnt, hvorki af eigendum þess né eigendum landsins. Um fjórðungur þess fjár sem kom fram við smalamennsku í Tálkna í haust var sannanlega frá bæjum í Arnarfirði og á Barðaströnd. Samkvæmt lögum er bannað að halda útigöngufé á Íslandi og voru sveitarstjórnir að framfylgja þeim þegar fénu var smalað. Á myndum af fénu sem náðist í Tálkna og lagðar voru fram á fundinum mátti sjá hrút með horn vaxið inn í auga, ær þar sem horn var um það bil að vaxa í auga og hrút sem misst hafði neðan af fæti. Augljóst má vera að þessi dýr hafa þjáðst og slíkt samræmist ekki dýraverndarlögum. Alþingi hefur nú lagt málið fyrir þrjú ráðuneyti, dómsmála-, umhverfis- og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.“ 

Bændasamtök Íslands hafa einnig lýst yfir stuðningi við framgöngu yfirvalda í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi og sent bæjaryfirvöldum bréf þar sem eftirfarandi kemur fram: „Samþykkt var samhljóða að lýsa eindregnum stuðningi stjórnar Bændasamtaka Íslands við framgöngu yfirvalda í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi við að framfylgja lögum um fjallskil og búfjárhald.“

Ragnar Jörundsson, bæjarstjóri í Vesturbyggð segist vita af fleiri ályktunum frá ýmsum aðilum sem allar halli í sömu átt og þær skoðanir sem fram koma í framgreindum bókunum. Hann segir jafnframt að ekkert hafi heyrst frá ráðuneytum um þetta mál ennþá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert