Sendiherrabústaður seldur

New York.
New York. Reuters

Utanríkisráðuneytið hefur nú selt sendiherrabústaðinn í New York fyrir 4,45 milljónir bandaríkjadala eða sem svarar til nálægt 550 milljóna króna. Á í staðinn að leigja sendiherrabústað í borginni og er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þess verði 27 milljónir króna á næsta ári. 

Fram kemur í greinargerð meirihluta fjárlaganefndar með breytingartillögum við fjárlagafrumvarp næsta árs, að utanríkisráðuneytið telji réttast að leigja sendiherrabústað í New York frá næstu áramótum. Ráðuneytið geri engu síður ráð fyrir að fest verði kaup á sendiherrabústað í New York síðar en hefur að svo komnu máli ekki vissu fyrir hvenær af því gæti orðið.

Fjárlaganefnd leggur einnig til að rekstrarframlag sendiráða lækki um 50 milljónir króna frá fjárlagafrumvarpinu. Þar hafi verið búið að gera ráð fyrir tiltekinni hagræðingu í rekstri, sem ætlað var að skila 3% lækkun á rekstrarkostnaði. Frekari ráðstafanir til hagræðingar í verkefnum utanríkisþjónustunnar hafi nú verið til athugunar og sé nú áformað að draga enn frekar úr rekstrarkostnaði sendiráða.

Á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins hafi einnig verið ákveðnar ýmsar ráðstafanir til að draga saman starfsemi á nokkrum sviðum með innri hagræðingu, einkum með breytingum í starfsmannahaldi, til að mæta með þeim hætti nýjum verkefnum og álagi, sem fylgi umsókn um aðild að Evrópusambandinu, án þess að hækka þurfi fjárheimildir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert