Segir Breta hafa hótað

Atkvæðagreiðslur fóru fram með gamla laginu, handauppréttingu, á Alþingi í …
Atkvæðagreiðslur fóru fram með gamla laginu, handauppréttingu, á Alþingi í dag þegar rafræna atkvæðakerfið bilaði.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að þegar hann talaði nýlega um grímulausar hótanir aðila innan Evrópusambandsins vegna Icesave-málsins hafi hann átt við að Bretar og fleiri Evrópuþjóðir hefðu haustið 2008 verið með hótanir um að EES-samningnum yrði hleypt í uppnám ef Íslendingar gæfu ekki eftir í Icesave-deilunni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um málið í dag. Össur sagði að hugsanlega ætti Steingrímur við bréf, sem Bretar sendu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 8. október 2008. Þar kvörtuðu þeir undan því, að Íslendingar hefðu með aðgerðum sínum dagana á undan brotið ákvæði EES-samningsins og óskuðu eftir því að framkvæmdastjórnin gripi til viðeigandi aðgerða.

Össur sagði, að framkvæmdastjórnin hefði framsent bréfið til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og síðan hefði ekkert til þess spurst „og enginn viljað af því vita, hvorki Bretar, framkvæmdastjórnin né ESA," sagði Össur, sem sagði þetta hafa verið lyktir málsins.

Össur sagði að þetta bréf hefði þó verið rætt í utanríkismálanefnd Alþingis og í viðskiptanefnd í sumar og komist í fréttir á miðju sumri. Ýmsum þingmönnum hefði verið sýnt það í trúnaði en það hefði ekki verið birt opinberlega. Össur sagðist hafa sent utanríkismálanefnd Alþingis bréfið í morgun.

Steingrímur staðfesti, að hann hefði verið að vitna til þeirra atburða á haustmánuðum 2008 þegar Bretar hefðu beinlínis bréflega og aðrar Evrópusambandsþjóðir, hótað því að EES-samningnum eða hlutum hans yrði hleypt í uppnám ef Íslendingar gæfu ekki eftir í Icesave-deilunni.

Steingrímur sagði að lítið hefði verið talað um þetta þá en gögn hefðu legið fyrir um málið síðan í desember og því væri furðulegt ef menn teldu þetta einhverjar nýjar fréttir.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að í bréfinu hefðu íslensk stjórnvöld verið sökuð um að mismuna fólki á grundvelli þjóðernis. Það hafi hins vegar komið skýrt fram í úrskurðum ESA nýlega að íslensku neyðarlögin gerðu það ekki.

Eygló sagðist hafa óskað eftir því við ESA að fá að birta þessi gögn en því hefði verið neitað.

Ragnheiður Elín sagði, að hana hefði grunað að Steingrímur væri að vísa til þessara gagna þar sem hún hefði lesið þau. Hún sagði, að Steingrímur hefði í ræðunni um daginn verið með hræðsluáróður um að ef Íslendingar samþykktu ekki Icesave væru hótanir um þetta og hitt. Hann hefði hins vegar ekki getað fjallað um hvaða hótanir væru nú heldur valið að tala um eitthvað, sem gerðist í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert