Fundur á Álftanesi í kvöld

Borgarafundur verður haldinn í íþróttahúsinu á Álftanesi í kvöld, fimmtudagskvöld, klukkan 20, en ekki annað kvöld eins og missagt er í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er skýrsla um rannsókn á fjárreiðum sveitarfélagsins sem unnin var fyrir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

 Þá hefur verið boðað til aukafundar í bæjarstjórn klukkan 16:30 í dag og verður hann haldinn í aðalsal íþróttahússins. Efnið er samkomulag milli samgönguráðuneytisins og sveitarfélagsins um að sveitarfélagið fái frest til 20. janúar til að leggja fram fjárhagsáætlun sem miðar að því að sveitarfélagið standi undir rekstri sínum. 

Að sögn Pálma Þórs Mássonar, bæjarstjóra, segir að samkomulagið sé ekki fullfrágengið. Það verði lagt fram á bæjarstjórnarfundi klukkan 16:30. Fundurinn er opinn og er sendur út beint á vef sveitarfélagsins, www.alftanes.is.

Pálmi Þór gerir ekki ráð fyrir að tillögur að niðurskurði verði lagðar fram á borgarafundinum. „Ég geri fastlega ráð fyrir að haldinn verði annar fundur með íbúum þegar fjárhagsáætlun liggur fyrir til að kynna niðurstöður.“ Fundurinn í kvöld sé einkum til að fara yfir aðdraganda þess að leitað var til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og fara yfir samkomulagið við samgöngumálaráðuneytið. „Síðan er þetta tækifæri fyrir íbúana til að leggja spurningar fyrir bæjarfulltrúa,“ sagði Pálmi Þór í viðtali við mbl.is. 

Pálmi Þór tók við sem bæjarstjóri 9. september þegar ráðningarsamningi við Sigurð Magnússon bæjarfulltrúa og þáverandi bæjarstjóra var slitið. Pálmi Þór var áður bæjarlögmaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert