Kristinn H: Ekki krónu til Björgólfs Thors

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson mbl.is

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingmaður ritar pistil á vef sinn þar sem hann segir að ekki eigi að koma til greina að veita Verne Holding eina krónu í stuðning á meðan Björgólfur Thor Björgólfsson komi að félaginu.

„Ríkisstjórnin vill veita Björgólfi Thor Björgólfssyni sérstaka ríkisaðstoð að fjárhæð um 250 milljónir króna. Fyrirtæki sem ætlar að reisa gagnaver á Suðurnesjum fær 670 milljóna króna eftirgjöf af sköttum og gjöldum. Novator, fyrirtæki Björgólfs, á þar 40%.

Mér er fyrirmunað að sjá hvað maðurinn hefur unnið þjóðfélaginu til gagns sem réttlætir sérstakt framlag úr ríkissjóði til hans í viðurkenningarskyni. Ábyrgðarleysi, óráðvendni, ófyrirleitni og jafnvel sviksemi undanfarinna ára koma fram í þungum klyfjum sem verða lagðar á herðar almennings á næstu árum.

Óumdeilanlega á Björgólfur Thor stóran þátt í þessari ógæfu. Hann á vissulega þann rétt að dómstólar og aðrir til þess fengnir aðilar meti ábyrgð hans og sekt. En ríkissjóður hefur engar skyldur við Björgólf, sérstaklega ekki að veita honum verðlaun fyrir að ávaxta fé sitt hér á landi. Nóg hefur hann fengið.

Það kemur ekki til mála að veita einni krónu í umrætt verkefni með hann innanborðs," skrifar Kristinn á vef sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert