Kostnaður vegna Icesave hærri ef samkomulag verður fellt

Árni Páll Árnason í ræðustóli Alþingis.
Árni Páll Árnason í ræðustóli Alþingis.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að danska  fjármálaráðuneytið hefði sent fjármálanefnd danska þingsins bréf 23. nóvember þar sem fram kemur að lánveiting Norðurlandanna til Íslands sé háð því að Íslendingar gangi frá samningum um lausn Icesave-málsins. 

„Með öðrum orðum: Sú lánafyrirgreiðsla sem við höfum þegar fengið er fengin í trausti þess að frá samningum um Icesave verði gengið og ef að þeir samningar verða felldir nú er lánafyrirgreiðsla okkar, þegar veitt, öll í uppnámi, við öll Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og frekari lánafyrirgreiðsla er ekki í boði," sagði Árni Páll í umræðu um Icesave-frumvarpið.

Hann sagði einnig, að lánshæfismat íslenska ríkisins yrði í mikilli óvissu ef ekki yrði gengið frá málinu nú. Því væri ljóst, að kostnaður Íslendinga af Icesave-málinu verði mun meiri ef þeir samningar, sem nú liggja fyrir, verða ekki samþykktir.

„Hér hefur verið nokkuð rætt um afleiðingar aðgerðaleysis í þessu máli. Því hefur verið haldið fram að erlendar þjóðir muni þá bara sækja það fyrir íslenskum dómstólum eins og málinu geti lokið með þeim hætti.  Það er mikið hættuspil að stilla málum upp með svo einfeldningslegum hætti því auðvitað er um að ræða milliríkjadeilu, sem aldrei verður leyst einhliða af öðrum aðilanum," sagði Árni Páll.

Hann sagði að þess vegna hefði verið ákveðið  að leita samninga í Icesave-málinu í upphafi og þess vegna hafi verið komist að þeirri niðurstöðu í tíð núverandi ríkisstjórnar, að lengra yrði ekki haldið.

Árni Páll sagði ljóst, að með því að samþykkja svonefnd Brusselviðmið hefðu Íslendingar viðurkennt þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að hér ætti að gilda innistæðutryggingakerfi með sama hætti og annarstaðar í Evrópu. Ljóst sé af reynslu, að ef Íslendingar kjósa að ganga ekki frá samningum við nágrannaríki muni alþjóðlegur þrýstingur aukast mjög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert