Sá ekki glærukynningu

Þingmenn skoða gögn á Alþingi í dag.
Þingmenn skoða gögn á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi kvöld að hann hefði í júlí gert utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir fundi sem hann sat á Jumeria Carlton Tower Hoteli 31. mars. Á þeim fundi hefði hann hins vegar aldrei fengið glærukynningu, sem lögmannsstofan Mishcon de Reya hafði undirbúið. 

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Össur að þessu í lok umræðunnar í Icesave-umræðunni og vísaði til misræmis í yfirlýsingum og gögnum um málið.

Össur sagði að fundurinn hefði verið langur, um 2 tímar, en hann sátu fulltrúar Landsbankans, íslensku Icesave-samninganefndarinnar og Mishcon de Reya. Sjálfur hefði hann aðeins litið þar við í 12 mínútur og drukkið einn kaffibolla. Hann hélt síðan til fundar með David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands.

„Ég fór á þennan fund sérstaklega til að fá upplýsingar um afstöðu Landsbankamanna varðandi verðmæti eigna Landsbankans. Tilgangur minn með fundinum með Miliband var að fá Breta til að fara Landsbankaleiðina, sem sennilega er kölluð þriðja leiðin í þessum plöggum. Það er að segja nýta andvirði eignanna til að greiða niður skuldina og fá langan greiðslufrest.

Það var það eina sem ég hafði áhuga á og eina sem ég talaði um á þessum fundi. Rétt er að lögmaðurinn var þarna og einhverjir fleiri menn. Ég var hins vegar ekki kominn þangað til að fá upplýsingar frá þeim heldur einungis þessar upplýsingar og ég fór fullur sannfæringar á fund Milibands og tókst að sannfæra hann," sagði Össur.

Hann sagðist aðeins hafa talað tvo Íslendinga, sem voru á fundinum og þar hefðu engir íslenskir embættismenn verið utan aðstoðarmaður Össurar. „Þessa Landsbankamenn hef ég hvorki séð fyrr né síðar en ég man að þau heita Baldvin og Lilja. Þar var engin sem hét Áslaug og ég minnist þess ekki að Huginn Þorsteinsson hafi verið á þeim fundi," sagði Össur.

Hann sagði að ýmislegt, sem komið hefði frá lögmannsstofunni, virtist vera á misskilningi byggt. Í tölvupóstum, sem bárust frá stofunni í dag, hefði m.a. komið skýrt fram, að Mike Stubbs, sem sat umræddan fund fyrir hönd Mishcon, hefði talið að miðað við það sem hann vissi þá hefði verið ástæða fyrir formann íslensku samninganefndarinnar, að hafa ekki þessa tilteknu glærukynningu  með í kynningunni fyrir Össur því hún varðaði ekki fundarefni Össurar og Milibands. 

Hann sagðist ekki hafa fengið neitt plagg í hendurnar á þessum fundi. Hann hefði síðar séð plagg, sem var dagsett á öðrum degi og stílað á allt annan mann.  Það voru gögn, sem voru lögð fram á fundi á skrifstofum Mishcon de Reya 26. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert