Fréttaskýring: Sparnaður vegna lyfja um 1,6 milljarðar

Samkvæmt fjárlögum 2009 bar heilbrigðisráðuneytinu að lækka lyfjakostnað sjúkratrygginga. 1. mars sl. var m.a. gerð sú breyting á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í tveimur flokkum maga- og blóðfitulækkandi lyfja að henni var beint að ódýrustu lyfjunum en greiðsluþátttöku vegna dýrustu lyfjanna var takmörkuð við lyfjaskírteini, sem eru ekki gefin út nema fyrir liggi rökstudd umsókn læknis.

Einar Magnússon, lyfjamálastjóri hjá heilbrigðisráðuneytinu, segir að lækkun lyfjaútgjalda Sjúkratrygginga vegna þessara breytinga hafi numið um 410 milljónum króna vegna magalyfja (prótónpumpuhemla, PPI-lyfja) og um 270 milljóna kr. vegna blóðfitulækkandi lyfja frá mars til nóvember 2009.

Gengið dregur úr sparnaði

1. október sl. var svipuð breyting gerð á greiðsluþátttöku ákveðinna flokka blóðþrýstingslyfja. Gert var ráð fyrir að lækkunin yrði um 50 milljónir út árið en hún var um 45 milljónir fyrstu tvo mánuðina.

Þriðja breytingin var gerð 1. nóvember og þá vegna lyfja sem hafa áhrif á beinbyggingu og beinmyndun, en reiknað var með að breytingin myndi leiða til um 14 milljóna kr. lækkunar á lyfjaútgjöldum til ársloka. Vegna tilkomu samheitalyfja í apríl og júní og breytinga á greiðsluþátttökunni lækkaði lyfjakostnaðurinn um 28 milljónir frá apríl til nóvember.

Lyfjagreiðslunefnd endurskoðaði lyfjaverð 1. júlí, 1. ágúst og 1. september og leiddi endurskoðunin til um 200 milljóna kr. lækkunar lyfjaútgjalda Sjúkratrygginga. Breyting var gerð á smásöluálagningu lyfja 1. janúar 2009 og var áætlað að breytingin lækkaði lyfjakostnaðinn um 210 milljónir (um 150 milljónir hjá Sjúkratryggingum og um 60 milljónir hjá sjúklingum).

Einar bendir á að frá mars fram í október 2008 hafi meðalgengi evru verið 116 krónur en 168 krónur frá mars til október 2009. Veiking krónunnar hafi því dregið töluvert úr sparnaðinum.

Áfram sparað

Gert er ráð fyrir að sparnaðurinn verði svipaður í ár og á nýliðnu ári, en á móti komi kostnaðarhækkun vegna nýrra lyfja, meðhöndlunar fleiri sjúklinga og gengisbreytinga.

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna tiltekinna öndunarfæralyfja breyttist 1. janúar sl. og er áætlað að sparnaðurinn verði 200 til 300 milljónir kr. á árinu. Um 28 þúsund manns fengu innúðalyf á liðnu ári. Kostnaður Sjúkratrygginga vegna þessa nam um 840 milljónum kr. 2008 og um einum milljarði 2009.

Sjúkratryggingarnar miða endurgreiðslur við ódýrustu dagskammta astma- og ofnæmislyfja í samræmi við fyrrnefndar breytingar á nýliðnu ári. Hagkvæmustu pakkningarnar eru metnar út frá verði á ráðlögðum dagskammti í pakkningu og pakkningar, sem innihalda dagskammta sem víkja ekki meira en 290% frá ódýrasta dagskammti, eru niðurgreiddar sem fyrr.

Kostar 10 milljarða

LYFJAKOSTNAÐUR Sjúkratrygginga Íslands nam um 9,3 milljörðum 2008 og gert er ráð fyrir að hann hafi verið um 10 milljarðar á nýliðnu ári eða um tvöfalt meiri en árið 2002, en þá var hann liðlega 5,4 milljarðar.

Sjúkratryggingar endurgreiddu atvinnulausu fólki um 16,7 milljónir króna vegna lyfjakaupa frá mars til nóvember 2009. Lyfjakostnaður vegna barna jókst um 130 milljónir kr. á sama tíma, fyrst og fremst vegna gengisfalls krónunnar, en frá og með 1. mars á liðnu ári greiða börn undir 18 ára aldri og atvinnulausir sama gjald fyrir lyf sín og lífeyrisþegar.

Gróflega skiptast lyf í fjóra flokka eftir greiðsluskiptingu milli sjúkratrygginga og sjúklinga. Greiðsla sjúkratrygginga reiknast út frá viðmiðunarverði lyfsins, lægsta verði sambærilegs lyfs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert