67% vilja fella Icesave-lögin úr gildi

Íslendingar sjást hér mótmæla Icesave á Austurvelli. Mynd úr safni.
Íslendingar sjást hér mótmæla Icesave á Austurvelli. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup, sem var gerð fyrir RÚV, vill 67% landsmanna að stjórnvöld felli Icesave-lögin úr gildi og hefji samningaviðræður að nýju. Þetta kom fram í kvöldfréttum Sjónvarps.

Þá kom fram að aðeins röskur þriðjungur svarenda búist við að ríkisstjórnin lifi út kjörtímabilið. Tæpur helmingur geri ekki ráð fyrir því.

Rösk 60% telja að ákvörðun foretans, sú að staðfesta ekki lög um ríkisábyrgð vegna Icesave, hafi slæm áhrif á þjóðarhag. Rúm 20% telja að ákvörðunin hafi hvorki góð né slæm áhrif. 17% telja að það hafi góð áhrif á þjóðarhag að forsetinn hafi vísað málinu til þjóðarinna, að því er fram kom í fréttum Sjónvarps.  

Skv. könnuninni myndi meirihluti landsmanna samþykkja Icesave lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Næstum níu af hverjum tíu gera ráð fyrir að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave ríkisábyrgðina, fari hún fram. Icesave ríkisábyrgðin yrði samþykkt sé að marka könnunina. Ríflega helmingur myndi kjósa með Icesave lögunum. Færri eða 41% myndu kjósa á móti þeim, að því er kom fram í fréttum Sjónvarps.

Capacent gerði könnunina á netinu í gær og í dag. Tólfhundruð manns voru spurðir og 64% þeirra svöruðu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert