Eflir ekki endilega lýðræðið

Davíð Þór Björgvinsson.
Davíð Þór Björgvinsson. Ragnar Axelsson

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstólinn í Strassborg og prófessor við lagadeild HR, telur að ákvörðun forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar, flæki stjórnskipun landsins og geri ríkisstjórnum og meirihluta Alþingis erfitt fyrir að koma óvinsælum málum fram. Hún efli þó ekki endilega lýðræði í landinu.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Davíð Þór að með synjun forsetans á fjölmiðlalögunum og nú á Icesave-lögunum væru Íslendingar komnir með alveg nýjan þátt inn í sína stjórnskipun.

„Forsetinn er í þessum skilningi búinn að taka sér stöðu í miðju stjórnmálanna og ákveður hvaða mál skuli þess verð að fara í þjóðaratkvæði og hver ekki,“ sagði hann. Menn yrðu nú að setjast niður og spyrja sig hvort þetta væri æskileg þróun og horfði til framfara í stjórnskipuninni.

Ein af afleiðingum þess að forseti beiti synjunarvaldi væri sú að ríkisstjórnum væri nú gert erfitt að koma fram erfiðum og óvinsælum málum, jafnvel þótt þau væru talin nauðsynleg. „Í þeim skilningi virkar þetta hamlandi fyrir ríkisstjórnir og þingmeirihluta, án þess að ég sjái í þessu sérstaka réttarbót,“ sagði Davíð Þór. Hann sæi ekki að stjórnskipun landsins yrði endilega mikið lýðræðislegri með því að forsetinn tæki sér þetta vald eða beitti því með þeim hætti sem hann gerði í þessu máli. Setja yrði lög um þjóðaratkvæðagreiðslur ef menn teldu þörf á þeim og um skilyrði þess að slíkar atkvæðagreiðslur yrðu haldnar, frekar en að búa við það fyrirkomulag að þetta væri ákvörðun þess sem gegnir embætti forseta hverju sinni.

 Hefði mátt bregðast öðruvísi við 2004

Ólafur Ragnar Grímsson er eini forsetinn sem hefur neitað að staðfesta lög frá Alþingi. Davíð Þór benti á að fram að því hefðu raunar verið skiptar skoðanir um hvort forseti hefði í raun og veru sjálfstætt vald til að synja lögum staðfestingar. Nú virtist hins vegar sem lítill eða enginn ágreiningur væri um að forseti hefði synjunarvald. Ástæðan væri m.a. sú að með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við synjun forseta á fjölmiðlalögunum árið 2004, hefði falist viss viðurkenning á að forsetinn hefði þetta vald. Stjórnin hefði getað litið svo á að synjun forsetans á fjölmiðalögunum hefði ekkert gildi, lögin væru fullgild þrátt fyrir að forsetinn neitaði að skrifa undir þar sem atbeini hans væri aðeins formlegur.

Dómstólar hefðu síðan endanlega skorið úr um hvort forsetinn gæti synjað lögum staðfestingar ef ágreiningur um gildi laganna hefði verið undir þá borinn.

Mikilvægt fordæmi var gefið

Aðspurður hvort ríkisstjórnin gæti núna sagt sem svo að synjun forsetans hefði ekkert gildi, sagði Davíð Þór að það væri erfitt, bæði af lagalegum og pólitískum ástæðum. Fordæmi hefði verið gefið árið 2004 og hefðu menn viljað freista þess að andæfa synjunarvaldinu hefði verið æskilegt að gera það þá með stjórnskipulegum rökum. Þetta væri þó flókið álitamál og erfitt að segja til um hvenær fordæmi festi reglur á sviði stjórnskipunarréttar í sessi.

„Með þessum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar 2004 var mótað mikilvægt fordæmi sem í það minnsta gerir núverandi ríkisstjórn erfiðara fyrir og hún er í þrengri stöðu til að halda á lofti þessum viðhorfum að forseti hafi ekki synjunarvald en ella hefði verið,“ sagði Davíð Þór Björgvinsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert