Fréttaskýring: Indlandsferð forseta enn á dagskrá

Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, og Sonia Gandhi heimsóttu Ísland árið …
Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, og Sonia Gandhi heimsóttu Ísland árið 2001.

Útlit er fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands haldi sig við áætlanir um opinbera heimsókn til Indlands í næstu viku. Spurður að því á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær hvort ákvörðun hans um að synja Icesave-lögunum staðfestingar hefði áhrif á fyrirhugaða ferð forseta, sagði hann: „Ég hef ekki tekið neina aðra ákvörðun á þessari stundu heldur en að ljúka þessu máli með þessari yfirlýsingu hér í dag.“

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti að vera með í för en sagðist í samtali við blaðamann mbl.is í gær vera hættur við.

Forseti Indlands Pratibha Patil og indversk stjórnvöld buðu í nóvember Ólafi Ragnari í opinbera heimsókn til Indlands dagana 14.-18. janúar. Til stendur að hann taki um leið við Nehru-verðlaununum vegna baráttu fyrir friði og afvopnun.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ætlaði forseti að hitta eiginkonu sína Dorrit Moussaieff í London í vikunni og halda þaðan til Indlands. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort hann hafi breytt þeim fyrirætlunum.

Venja er að ráðherra sé með í opinberum heimsóknum forseta til annarra ríkja. Embætti forseta skipuleggur ferðina, Örnólfur Thorsson forsetaritari vildi ekki svara því hvort til standi að einhver ráðherra fari til Indlands í stað utanríkisráðherra, né hvort, og þá hvenær, lagt verði af stað. Embættismenn sem Morgunblaðið ræddi við vissu ekki hvort einhver ráðherra fari í stað Össurar.

Ólafur Ragnar hefur áður hætt við opinberar heimsóknir þegar hann taldi mikið liggja við. Sumarið 2004 ákvað hann að vera ekki viðstaddur brúðkaup Friðriks krónprins Dana, þar sem lög um fjölmiðla bárust honum á sama tíma. Þá ákvað forsetinn í ágúst 2008 að fresta för til Bangladess svo hann gæti heiðrað landslið Íslands í handbolta fyrir góðan árangur á Ólympíuleikum.

„Hann gæti litið svo á að hann hafi lokið sínu hlutverki; hann hafi synjað þessum lögum staðfestingar og nú taki við ferli sem hann beri enga ábyrgð á,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent í stjórnmálafræði um mögulega utanlandsferð forseta. „En á móti má segja að forsetinn hafi stigið inn í atburðarás stjórnmálanna með það óvenjulegum og afgerandi hætti, að hann beri siðferðilega skyldu til að fylgja málinu eftir og sjá til þess að það fari ekki allt í bál og brand.“

Eiríkur og fleiri hafa bent á að ákvörðun forseta geti valdið ríkisstjórnarslitum. Fari svo er það hlutverk forsetans að stýra stjórnarmyndunarviðræðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert