Erfitt og krefjandi verkefni

Gríðarleg eyðilegging er á Haítí.
Gríðarleg eyðilegging er á Haítí. Reuters

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin vinnur nú að því að lesta flugvél Icelandair sem mun flytja hana að hamfarasvæðinu á Haíti. Ráðgert er að leggja af stað klukkan tíu og tekur ferðalagið um níu klukkustundir. Framkvæmdastjóri Landsbjargar segir verkefnið erfitt og krefjandi.

Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir að menn hafi unnið í alla nótt að undirbúningi. Um leið og skjálftinn reið yfir Haíti hafi alþjóðabjörgunarsveitin verið sett í viðbragðsstöðu. Utanríkisráðuneytið bauð í kjölfarið fram sveitina og eftir að yfirvöld í Haíti þáðu hjálpina hófst undirbúningur.

Stutt er síðan alþjóðabjörgunarsveitin hlaut vottun og segir Kristinn að meðlimir hennar séu vel í stakk búnir til að takast á við verkefnið. Flogið verður til Boston og þaðan annað hvort beint til Haíti eða Dóminíska Lýðveldisins. Ræðst það af ástandi flugvallarins á Haíti .

Sveitin verður komin á áfangastað um sólarhring eftir að skjálftinn reið yfir. Kristinn segir mikið starf framundan, enda ástandið skelfilegt í höfuðborginni. Hann mun sjálfur fylgja sveitinni á áfangastað.

Á fjórða tug björgunarmanna halda til Haíti og hefur sveitin með sér um tíu tonn af rústabjörgunarbúnaði, þrjú tonn af vatni, tjaldbúðir, fullkominn fjarskiptabúnað og vatnshreinsibúnaðar.

Hægt er að halda sveitinni úti án utanaðkomandi aðstoðar í allt að sjö daga. 

Myndir af undirbúningnum á vefsvæði Hjálparsveitar skáta í Kópavogi

reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert