Stuðningur alþjóðasamfélagsins nauðsynlegur

Dominique Strauss-Kahn var spurður út í Icesave og stöðu Íslands.
Dominique Strauss-Kahn var spurður út í Icesave og stöðu Íslands. TIM CHONG

„Þið Íslendingar verðið að hafa stuðning alþjóðasamfélagsins til að geta haldið áfram.“ Þetta sagði Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á blaðamannafundi í dag þegar hann var spurður út í endurskoðun á efnahagsáætlun sjóðsins, en líkur eru taldar á að hún tefjist vegna óvissu um Icesave.

Sveinn Helgason, fréttamaður á RÚV, spurði Strauss-Khan á fundinum hvort endurskoðun á efnahagsáætlun AGS yrði frestað og hvort ákvörðun forseta Íslands að neita að staðfesta Icesave-lögin hefði eitthvað með það að gera að seinka þessari endurskoðun

„Ég get vel skilið þegar fólk á Íslandi segir að þetta allt sé óréttlátt og að það sem bankarnir gerðu hafi verið rangt og að þetta eigi ekki að bitna á landsmönnum með beinum hætti. Þessi sjónarmið skil ég vel.

Á hinn bóginn hefur Ísland tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar og Ísland, sem fullvalda ríki, getur ekki útilokað sig frá því sem gerðist í fjármálageira landsins. Hlutverk okkar hjá AGS er að hjálpa Íslandi að komast í gegnum þessa mjög svo erfiðu stöðu og ég tel að okkur sé að takast þetta. Ég veit að á Íslandi gagnrýna margir AGS. Við erum ekki óvanir slíku. Við erum að reyna að hjálpa Íslandi að forðast algjört hrun og það hefur tekist með góðri samvinnu við ríkisstjórn Íslands.

Varðandi spurninguna um Icesave. Öfugt við það sem margir segja þá er lausn á deilu um þessar skuldbindingar ekki skilyrði þess að AGS aðstoði Ísland, en við erum stofnun sem er stjórnað af alþjóðasamfélaginu og við þurfum að hafa stuðning meirihluta alþjóðasamfélagsins þegar við tökum ákvarðanir. Ef margar aðildarþjóðir telja að við eigum að halda okkur til hlés þá verðum við að gera það.“

Strauss-Khan sagðist vona að ákvarðanir sem leiddu af ávörðun forsetans yrðu leystar hratt svo hægt væri að halda áfram að vinna með með ríkisstjórninni.

„Við tökum ekki að okkur að innheimta skatta við nein lönd. Þið Íslendingar verða að hafa stuðning alþjóðasamfélagsins til að geta haldið áfram. Við verðum að finna lausn á öllum þessum vandamálum og að því vinnu við í góðri samvinnu ríkisstjórnar Íslands og AGS.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert