Fast skotið á báða bóga hjá VG

Steingrímur J. Sigfússon ávarpar fundinn.
Steingrímur J. Sigfússon ávarpar fundinn. mbl.is/Skapti

Deilt var á bæði forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og þá þingmenn flokksins sem hafa ekki verið samstiga forystunni í Icesave-málinu í almennum umræðum á flokksráðsfundi á Akureyri í gærkvöldi.

Einn fundarmanna sakaði formanninn, Steingrím J. Sigfússon, um valdhroka og minnti á að þótt flokkurinn hefði farið í ríkisstjórn ætti hann að berjast áfram fyrir eigin stefnu.

Því var lýst yfir að eðlilegt væri að skoðanir væru skiptar en þó mjög hvatt til samstöðu í flokknum. Það væri þjóðfélaginu nauðsynlegt.

Einn fundarmanna sagði ríkisstjórnina hafa unnið kraftaverk næstum því á hverjum degi en kvaðst „öskureiður“ yfir málflutningi Ögmundar Jónassonar og nokkurra annarra þingmanna undanfarið. Sá hinn sami sagðist reyndar hafa vakað lengi síðustu kosninganótt vegna þess hve mikið hann óttaðist að Ögmundur kæmist á þing. „Það er ekki gott að heyra að hann styðji ríkisstjórnina en snúist gegn Icesave. Afstaða hans og málflutningur veikir ríkisstjórnina. Er mönnum sama hvað málið dregst og tefur uppbyggingu í landinu?“ spurði ræðumaður.

Ögmundur kom í pontu síðar. Hann sagði aldrei hafa leikið vafa á því að Íslendingar vildu greiða skuldir sínar, „en við höfum viljað fá úr því skorið hverjar okkar skuldbindingar eru, það hafa Bretar og Hollendingar, nú með fulltingi Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, neitað okkur um“.

Ögmundur sagði að hvað sem gerðist með flokka ætti hann alltaf samstöðu „með öllum þeim sem standa með íslenska öryrkjanum, íslenska launamanninum, sem vilja stuðla að gagnsæjum og heiðarlegum vinnubrögðum, sem vilja verja lýðræðið“.

Einn fundarmanna, Stefanía Traustadóttir, sem verið hefur í flokknum frá stofnun og starfaði þar áður lengi í Alþýðubandalaginu, lýsti því yfir að hún væri sorgmædd vegna þess hvernig komið væri fyrir VG. Hún hefði hugleitt að segja sig úr flokknum því hún liti svo á að hann væri á heljarþröm. Hann hefði dansað hrunadans síðan í haust og hún væri ósátt við að dansstjórarnir hefðu stundum verið úr röðum flokksmanna. „Ég krefst þess ekki að allir stígi í takt en samt verða allir að vera á sömu leið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert