VG með áhyggjur af fjölmiðlum

Flokksráðsfundur VG á Akureyri í dag.
Flokksráðsfundur VG á Akureyri í dag. Skapti Hallgrímsson

Flokksráðsfundur VG lýsir í ályktun sinni yfir þungum áhyggjum af stöðu fjölmiðla á Íslandi. Mikill samdráttur á fjölmiðlamarkaði hafi leitt til þess að blaðamönnum sé sniðinn óheyrilega þröngur stakkur.

Segir í ályktuninni að álag á fjölmiðlum sé mikið  og þeir blaðamenn sem enn hafi ekki orðið niðurskurðarhnífnum að bráð búi við mikið atvinnuóöryggi, sem aftur leiði til þess að þeir geti  átt erfitt með að standa vörð um sjálfstæði sitt gagnvart yfirmönnum sínum og eigendum fjölmiðlanna, bæði varðandi efnistök og óraunhæfar kröfur um vinnutíma og afköst.

„Fjölmiðlum er nú grímulaust beitt sem áróðurstækjum eigenda sinna. Ráðning ritstjóra Morgunblaðsins og sviptingar í mannahaldi þar og á fleiri miðlum eru skólabókardæmi um slíkt. Rekstur og tilgangur 365 miðla er illskiljanlegur í ljósi hrunsins og framtíð allra miðla óviss.

Ljóst er að mikið bakslag hefur orðið í jafnréttismálum innan fjölmiðlanna. Hæfum og reyndum konum hefur verið sagt upp störfum á sama tíma og karlar með minni reynslu og menntun eru keyptir milli miðla. Skortur á konum í fjölmiðlastétt leiðir einnig til þess að konum fækkar í hópi viðmælenda fjölmiðla, sem er háalvarlegt á tímum sem þessum þegar endurmótun íslensks samfélags á sér stað. Konur verða að vera þátttakendur í henni til jafns á við karla.

Þá hefur bæði núverandi og fyrrverandi formanni Blaðamannafélags Íslands og varaformanni félagsins, sem allar eru konur, verið sagt upp störfum með stuttu millibili. Á sama tíma voru aðrir blaðamenn, allt karlar, ráðnir til starfa á viðkomandi fjölmiðlum. Þetta eru ekki góð skilaboð til stéttarinnar og stéttarbaráttu blaðamanna. Vinstri græn hvetja fag- og stéttarfélög blaðamanna til dáða í baráttu fyrir frjálsri fjölmiðlun á Íslandi, enda er hún hornsteinn lýðræðisins og tjáningarfrelsisins. Blaðamönnum verður að tryggja uppsagnarvernd með lögum, svo öflug, gagnrýnin blaðamennska hætti að vera ávísun á brottrekstur, eins og nú hefur verið raunin. Einnig þarf aukna lagavernd fyrir þá sem veljast til trúnaðarstarfa fyrir stéttina," segir m.a. í ályktun VG um fjölmiðla.

Ríkið eignist Mílu

Fleiri ályktanir voru samþykktar á fundinum á Akureyri í dag. M.a. að beina því til ríkisstjórnarinnar að leitað verði leiða til þess að ríkið eignist Mílu, grunnnet  Símanns. Þá er ályktað um að öll stærri orkufyrirtæki landsins skuli vera í almenningseigu og fulltrúar og flokksfélagar VG hvattir til að vinna að því.

Mótmælt er einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og skorað er á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin. Varhugavert sé að draga úr vægi landbúnaðar og sjávarútvegs innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þurfi öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.

Ályktanir flokksráðs VG má nánar sjá hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert