Bankarnir verði sjálfstæðir í ákvörðunartökum

Magnús Orri Schram
Magnús Orri Schram

Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar, segir að ánægjuleg skref hafi verið tekin hvað varðar eignarhald bankanna, en nefndin fundaði í morgun um eignarhaldið og efnahagsreikninga bankanna.

„Nú er að verið að tryggja það að við fáum þarna hæfa stjórnarmenn, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur öll,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Þessir bankar muni verða sjálfstæðir í sínum ákvarðanatökum. Kröfuhafarnir munu hafa mjög óbein tengsl inn í starfsemi bankanna,“ segir Magnús.

Hann segir að nöfn stjórnarmannanna verði gerð opinber á næstu dögum.

Á fundinum var farið var yfir efnahagsreikninga bankanna, stöðu á eignarhaldi og stöðu bankanna almennt. Hvað bankarnir eru langt komnir með að skipa nýjar stjórnir og úttektir á hæfni stjórnarmanna. Fundurinn var fyrst og fremst til upplýsinga að sögn Magnúsar.

Hagsmunir bankans í fyrirrúmi

Hann bendir á að eignarhald Íslandsbanka og Arionbanka sé sett upp með svipuðum hætti. „Ég er mjög hrifinn af þeirri nálgun sem kemur í þessari uppsetningu, þ.e. að bein aðild skilanefndanna verður ekki mikil í rekstri bankanna. Í báðum tilvikum er búið að setja upp eignarhaldsfélag sem verður milliliður á milli bankans sjálfs og kröfuhafanna,“ segir Magnús.

Kröfuhafarnir, í gegnum skilanefndina, tilnefni einn stjórnarmann. Aðrir stjórnarmenn séu annað hvort skipaðir af ríkinu, þá í gegnum bankasýsluna, eða skipaðir sem óháðir skilanefndamenn.

„Þarna er verið að reyna að tryggja að það séu hagsmunir bankans sem séu settir í fyrirrúm, sem rekstrareiningar. Með því að klippa að verulegu leiti á samskiptin á milli, og gera þá þessa stjórn eignarhaldsfélagsins mjög sjálfstæða.“

Hvað varðar Íslandsbanka þá er það inni á borði Fjármálaeftirlitsins að fara yfir tilnefningar sjö manna stjórnar eignarhaldsfélagsins ISB Holding, sem rekur bankann. Að sögn Magnúsar verða fjórir þeirra að öllum líkindum erlendir. Þrír þeirra verða íslenskir. Ríkið muni tilnefna einn mann, annar verði væntanlega tilnefndur af hálfu skilanefndarinnar. Sá þriðji verði stjórnarformaður.

Mál Arionbanka eru á svipuðum stað. Þar heitir eignarhaldsfélagið Kaupskip. Þar er verið að skipa stjórn. Fjármálaeftirlitið er jafnframt að fara í gegnum þær tilnefningar sem hafa borist. Ekki liggur fyrir með hlutfall erlendra og innlendra aðila í stjórn bankans.

Málefni Landsbankans rædd frekar

Mestur tími nefndarmanna fór hins vegar í að ræða framtíð Landsbankans. „Ríkið hefur langmesta hagsmuni með að það fari vel fram, til lengri tíma litið,“ segir Magnús.

Hann bendir á að skiptingin á milli gamla og nýja bankans liggi fyrir. Málefni bankans séuí ferli og hyggst viðskiptanefnda að ræða málefni bankans frekar á næstunni. „Við munum setjast niður með stjórn Landsbankans í næstu eða þarnæstu viku og fara meira ofan í þeirra starfsemi.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert