Tilboð Iceland Express mun lægra en Icelandair

Íslenska sveitin að störfum í Haítí
Íslenska sveitin að störfum í Haítí Af vef Landsbjargar

Flugvél á vegum Iceland Express er nú á leiðinni til Haítí á vegum utanríkisráðuneytisins til að sækja íslensku rústabjörgunarsveitina en áætlað er að sveitin komi til Íslands á fimmtudag. Iceland Express á engar flugvélar en breska flugfélagið Astreus á flugvélina sem notuð er til ferðarinnar og er áhöfn vélarinnar nánast öll íslensk, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

 Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúar utanríkisráðuneytisins, fór vél á vegum Icelandair til Haítí með rústabjörgunarsveitina en ferðin var farin með stuttum fyrirvara.

Nú var óskað eftir tilboðum frá bæði Icelandair og Iceland Express vegna ferðarinnar og reyndist tilboð Iceland Express vera miklu lægra heldur en Icelandair. Því var ákveðið að skipta við Iceland Express enda utanríkisráðuneytinu gert að sýna ráðdeild í rekstri.

Síðastliðinn laugardag var óskað eftir tilboðum frá flugfélögunum tveimur og var ljóst að nægjanlegt væri að fá Boeing 737 flugvél í verkefnið.

Iceland Express sendi tilboð upp á 136 þúsund dali, 17,3 milljónir króna fyrir Boeing 737 en 167 þúsund dali, 21,2 milljónir, króna fyrir Boeing 757-200.

Tilboð Icelandair hljóðaði upp á 195 þúsund dali, 24,8 milljónir króna, fyrir Boeing 757-200.

Var lægsta tilboðinu tekið samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu enda munar 7,5 milljónum króna milli lægra tilboðs Iceland Express og tilboði Icelandair.

Óskað var eftir tilboði frá Icelandair í flutning rústabjörgunarsveitarinnar til Port au Prince, miðvikudaginn 13. janúar. Icelandair sendi tilboðið sömu nótt og hljóðaði það upp á 247 þúsund dali, 31,4 milljónir króna. Þessu tilboði var tekið enda ekkert ráðrúm til að afla frekari tilboða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert