Kornungur ljósmyndari vekur athygli

Þrátt fyrir að vera 15 ára og eiga aðeins eitt ár að baki í ljósmyndun er Snorri Björnsson farinn að vekja heilmikla athygli fyrir ljósmyndir sínar, sem meðal annars hafa ratað á plötuumslag hjá Stefáni Hilmarssyni.

Snorri hafði lítið sem ekkert átt við ljósmyndun fyrr en í fyrra. Þá urðu sannkölluð tímamót hjá honum þegar hann sótti ljósmyndanámskeið ásamt pabba sínum og frænda þar sem hann lærði á helstu tól og tæki í sambandi við  ljósmyndun.

Nú þegar er Snorri farinn að vinna sér inn aura með myndatökum því ýmsir vinir og ættingjar pöntuðu hjá honum jólamyndatökur í aðdraganda hátíðanna. Snorri hefur enda upp á að bjóða aðstöðu sem hver ljósmyndari gæti verið stoltur af en hann hefur innréttað lítið ljósmyndastúdíó úti í skúr heima hjá sér. 

Hann getur einnig státað sig af því að hafa tekið mynd sem skreytti plötuumslag Stefáns Hilmarssonar tónlistarmanns núna fyrir jólin. Nýlega fór hann svo að fikta við svokallaðar Time laps myndir, sem ganga út á það að taka fjöldan allan af myndum frá sama vettvangi og setja saman í hreyfimynd.

 Snorri segir það há sér svolítið í myndatökunum að vera ekki kominn með bílpróf, en hann finnur í staðinn aðrar leiðir til að ná skemmtilegum sjónarhornum.

Myndirnar setur Snorri svo á Flickr síðu sína á vefnum þar sem hann er þegar farinn að vekja mikla athygli, en heimsóknirnar hafa verið allt upp í 3000 yfir einn dag.

Flickr síða Snorra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert