Vilhjálmur: Húsnæðisliðurinn skiptir miklu

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að miklu skipti hvað varðar verðbólgutölur nú að húsnæði er að lækka mikið. Eins lækka flugfargjöld mikið en það er sveiflukenndur liður í vísitölu neysluverðs. „Það er betra að sjá þetta svona en hinsegin," segir Vilhjálmur en verðbólgan minnkar á milli mánaða öfugt við spár Greiningar Glitnis og IFS Greiningar sem höfðu spáð talsverðri hækkun milli mánaða.

Hann segir að í heild séu tölur að verða mun skaplegri og bendir á að undanfarna þrjá mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 0,9% sem jafngildir 3,7% verðbólgu á ári.

Vilhjálmur segir að ef vísitalan án húsnæðis er skoðuð þá er tólf mánaða hækkunin 10,9%.  Þriggja mánaða talan sé 6,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis. Þetta bendi til þess að verðbólguþróunin sé á réttri leið.

Segir Seðlabankann vera í sínum eigin heimi

Aðspurður um hvort hann telji að þetta geti haft einhver áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands, en verðbólga er mun minni nú heldur en hún var þegar peningastefnunefndin ákvarðaði vexti síðast, segist Vilhjálmur vera hættur að búast við nokkru frá Seðlabankanum. „Hann er bara í sínum eigin heimi," segir Vilhjálmur og bætir við að það hafi verið þannig lengi.

Hann segist hins vegar vonast til þess að  vextir lækki enda sé það ein af forsendunum fyrir því að hægt verði að koma fjárfestingum í atvinnulífinu í gang á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert