Leit að ísbirni lokið

Friðrik Höskuldsson, yfirstýrimaður, fylgist með hitamyndavélum um borð í Sif …
Friðrik Höskuldsson, yfirstýrimaður, fylgist með hitamyndavélum um borð í Sif í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Leit að hvítabirni við norðausturströnd landsins er lokið, í bili að minnsta kosti. Skv. upplýsingum frá Landhelgisgæslunni lagði TF-SIF af stað frá Reykjavík til leitar kl. 9 í morgun. Leitinni lauk svo um hádegisbil og ekkert hefur sést til fleiri bjarndýra.

Gæslan mun meta stöðuna í samráði við Umhverfisstofnun síðar í dag og þá væntanlega ákveðið hvort kanna eigi svæðið betur.

Ísbjörn gekk á land í Þistilfirði í gær, en hann sást fyrst við bæinn Sævarland um kl. 13. Hann var skotinn við eyðbýlið Ósland um tveimur tímum síðar.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem fólk á svæðinu var hvatt til að hafa varann á sér, þar sem grunur lægi á að ísbjörninn, sem var ungur, hefði verið í för með fullorðnu dýri.

Skv. upplýsingum frá lögreglunni á Húsavík er fólk enn beðið um að fara að öllu með gát, þrátt fyrir að ekki hafi sést til fleiri hvítabjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert