Tekist á um dagskrá þingsins

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Þingmenn stjórnarandstöðu lýstu í upphafi þingfundar yfir miklum vonbrigðum með dagskrá Alþingis í dag. Kvartað var yfir því að vandi heimilanna væri ekki ræddur en frekar árlegur vestnorrænn dagur  og vestnorræn nemendaskipti. Stjórnarliðar komu einnig í ræðustól og vörðu dagskrána.

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, hrósaði forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna fyrir þátttöku í lausnarferli Icesave, enda vonarglæta í því að sjá stjórn og stjórnarandstöðu vinna saman. Hann sagðist hafa vonað, að það væri merki um breytt vinnubrögð á þinginu, en allt kæmi fyrir ekki. Hann bætti við, að það hlyti að vera hægt að semja um dagskrá þingsins án þess að vera með gífuryrði.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, benti á að um væri að ræða mál sem voru í vinnslu hjá nefndum og væru klár til umræðu. Því ætti að láta af umræðunni og hefjast handa við þingstörfin.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist enga athugasemd gera við dagskrána, enda ekkert mál ómerkilegra en annað.

Stjórnarandstæðingar voru ekki sammála. Guðlaugur Þór benti jafnframt á, að tilkynnt hefði verið að efnahagsmál komist ekki á dagskrá þingsins í þessari viku „vegna þess að þeir sem um þau véla í ríkisstjórninni haf annað og betra að gera."

Þá fóru nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar fram á að þingsályktunartillaga um náttúruverndaráætlun árin 2009-2013 verði dregin til baka enda ætti eftir að ræða hana í umhverfisnefnd.

Dagskrá Alþingis í dag er eftirfarandi:

  1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.
  2. Handtaka og afhending manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) 171. mál, lagafrumvarp dómsmála- og mannréttindaráðherra. 2. umræða.
  3. Náttúruverndaráætlun 2009-2013 200. mál, þingsályktunartillaga umhverfisráðherra. Síðari umræða.
  4. Árlegur vestnorrænn dagur 311. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
  5. Vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi 312. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
  6. Samvinna um nám og starfsþjálfun fyrir ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum 314. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
  7. Vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi 315. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
  8. Skýrsla sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs 313. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
  9. Samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum 316. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
  10. Málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum 317. mál, þingsályktunartillaga ÓÞ. Fyrri umræða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert