Trufluðu nauðungaruppboð

Heimavarnarliðið mætti í Álfaskeið í Hafnarfirði í morgun og fylgdist …
Heimavarnarliðið mætti í Álfaskeið í Hafnarfirði í morgun og fylgdist með uppboði sem þar fór fram. mbl.is/Spessi

Hópur mótmælenda truflaði uppboð hjá sýslumanninum í Hafnarfirði í morgun. Lögregla var kölluð á staðinn, en uppboðið fór fram þrátt fyrir þessa truflun. Bogi Hjálmtýsson, lögfræðingur hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði, segir þessa uppákomu mjög óvenjulega.

Uppboðið fór fram að Álfaskeiði í Hafnarfirði að kröfu Íbúðalánasjóðs. Að sögn Boga var eigandi hússins fluttur til Noregs, en leigjandi var í húsinu. Hann sagði að þegar hann kom að húsinu, þar sem uppboðið átti að fara fram, hefði 15-20 manna hópur verið á staðnum og mótmælt uppboðinu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tilheyrir hópurinn svokölluðu Heimavarnarliði.  Bogi sagði aðspurður að hann hefði ekki verið í hættu þó að hópurinn hefði látið nokkuð ófriðlega. Hann sagðist hins vegar hafa kallað til lögreglu m.a. vegna þess að farið var inn í íbúðina án þess að leigjandi vissi af því.

„Þetta var mjög óvenjulegt og ég hef sem betur fer aldrei lent í þessu áður,“ sagði Bogi.

Hörður Ingvaldsson, talsmaður Heimavarnarliðsins, sagði í samtali við mbl.is að það yrði framhald á þessum aðgerðum. „Við ætlum okkur að standa með þessum hópi sem verið er að selja ofan af þessa dagana. Þetta er bara byrjunin.“

Hörður sagði að hópurinn hefði í morgun einungis fylgst með uppboðinu, en ekki truflað það. Í yfirlýsingu sem Heimavarnarliðið sendi frá sér segir að Heimavarnarliðið ætli „að verja heimili fólks fyrir útburði vegna óréttmætra skuldakrafna, með því að hindra aðgang lögreglu ef þarf.“

Heimavarnarliðið segist ætla að ganga friðsamlega fram í aðgerðum sínum en áskilur sér rétt til að verja hendur sínar.

Fleiri voru á staðnum en þeir sem tengjast Heimavarnarliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert