Skilaboð til Samkeppniseftirlitsins

Verslunin Kostur við Dalveg í Kópavogi.
Verslunin Kostur við Dalveg í Kópavogi. Morgunblaðið/Ómar

Verðkönnun ASÍ á verðlagi lágvöruverðsverslana sem kynnt var í dag sendir skýr skilaboð til Samkeppniseftirlitsins að mati Jóns Geralds Sullenbergers, eiganda Kosts. Í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér kemur fram að athygli veki að Kostur sé fyllilega samkeppnisfær með þær vörur sem fyrirtækið flytji sjálft inn til landsins, en ekki öðrum.

Það er, að mati Jóns Geralds, sjúkdómseinkenni á innlendum birgjum þjökuðum af margra ára fákeppni á matvörumarkaði. Vegna hringamyndunar sem hafi fengið að þróast nær óáreitt á undanförnum árum á Íslandi, þá sé hluti neytenda að niðurgreiða vörur fyrir aðra.

„Stærsti aðilinn nær inn hagnaðinum í gegnum aðrar keðjur sínar og neyðir birgja til að velta kostnaðinum yfir á samkeppnisaðila þeirra. Þetta ástand á ekkert skylt við heilbrigða samkeppni og endanum eru það heimilin í landinu sem borga brúsann,“ skrifar Jón Gerald.

„Við viljum auk þess koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri varðandi forsendur könnunarinnar:

  1. Af 40 vörum sem teknar voru út í þessari könnu eru eingöngu 2 vörutegundir sem Kostur flytur sjálfur inn. Hinar 38 eru allar keyptar frá innlendum birgjum.
  2. Ef að kjötvörur væru teknar út fyrir sviga þá væri Kostur í öðru sæti af þeim fjórum verslunum sem skoðaðar voru í könnunni.
  3. Innlendir birgjar sem forsvarsmenn Kosts ræddu við í dag sögðu að ástæðan fyrir verðmuninum væri að Kostur hefði ekki enn tileinkað sér öll þau brögð sem hinar verslanirnar beita til að blekkja neytendur og til koma vel út úr verðkönnunum.
  4. Í könnuninni er borið saman verð á lambalæri frá haustslátrun 2008 og það borið saman við lambalæri af nýslátruðu 2009.
  5. Kjúklingur sem aðrar verslanir í könnuninni selja undir eigin merkjum er ekki sambærilegur að gæðum við kjúklinginn frá Móum sem Kostur selur.
  6. Fleiri dæmi eru í könnunni þar sem að vörur eru bornar saman sem eru ekki sambærilegar að gæðum og því villandi að bera saman verð á þeim.

 
Í ljósi þessa alls má velta því fyrir sér hversu góður mælikvarði könnun ASÍ sé raunverulega fyrir neytendur. Við vitum að ASÍ vill standa vörð um neytendur og hvetjum því samtökin til að leggjast á árarnar með almenningi sem kallað hefur eftir aukinni samkeppni á matvörumarkaði. Við hér í Kosti lítum á þetta sem áskorun og munum halda áfram að vinna af heilindum við að lækka vöruverð eins og markmið okkar hefur verið frá upphafi,“ skrifar Jón Gerald.

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert