Vinnan aldrei unnin þannig að öllum líki

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir mikilvægt að það ferli sem bankarnir eru í miðju skuli vera hafið enda hafi það verið til vansa hversu lengi það dróst að þeir brettu upp ermarnar og aðstoðuðu fyrirtæki í skuldavanda. Hann segir mikilvægt að regluverkið sé skýrt en bendir á að sú vinna verði aldrei unnin þannig að öllum líki.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Hann sagðist telja það metnað allra þingmanna að skýrar verklagsreglur verði mótaðar, en hins vegar sé erfitt að draga skýra línu enda geti grunaðir menn verið saklausir og þeir sem taldir eru saklausir grunaðir á morgun. Hann sagði ljóst að skýrar lagaheimildir þurfi til að ganga að eigum brotlegra kaupsýslumanna og að sölumeðferð banka á stórum fyrirtækjum verði að vera gagnsæ.

Gylfi sagði að við vinnu bankanna þurfi að halda í heiðri nokkur sjónarmið, fyrst og fremst reglur réttarríkisins: að menn eru saklausir þar til sekt er sönnuð.

Hann bætti því við að það væri dómskerfisins að refsa mönnum en ekki bankakerfisins og enginn vilji varla framselja það vald til bankamanna. Gylfi sagði að ekki yrði farið út fyrir ramma réttarríkisins en sagðist skilja það vel, að mönnum þætti súrt að sjá menn sem gengið hafi freklega fram gegn þjóðinni, endurreisa sín viðskiptaveldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert